Saga Medica flutti inn til okkar í KeyNatura á síðasta ári og var þetta samstarf ákveðin tilraunastarfsemi til að skoða samlegðaráhrifin. Fyrir utan Sjöfn Sigurgísladóttur sem hefur verið framkvæmdastjóri yfir báðum félögunum höfum við verið með algerlega sína hvora starfsmennina,“ segir Lilja Kjalarsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri hins nýja félags.

„Sameiningarferlið hefur verið í gangi frá því í byrjun árs en sameiningin tók svo formlega gildi í sumar. Núna fyrst erum við að kynna hið sameiginlega félag undir nýju heiti SagaNatura, þó við séum reyndar ekki tilbúin með nýja logoið. Við höldum nefnilega vörumerkjum KeyNatura, fyrir vörur framleiddar úr Astaxanthin efninu úr þörungum og SagaMedica, sem eru þá vörur úr íslenskri hvönn, áfram aðskildum.

Þannig höfum við einnig rúm fyrir önnur vörumerki í framtíðinni undir okkar hatti ef við tökum samruna við önnur smærri fyrirtæki en þannig sjáum við fyrir okkur að halda áfram að stækka. Það er okkar takmark að 80% af tekjum félagsins verði erlendis frá og við verðum einna stærst í útflutningi á íslenskri náttúruvöru, en í dag er hlutfallið um helmingur.“

Eyrir Invest bakhjarl félaganna

Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest hefur staðið að baki báðum félögum og áfram að hinu sameinaða félagi. Fjárfestingarfélagið fjárfesti í SagaMedica árið 2013 en það er rótgróið félag sem rekja má aftur til aldamóta en KeyNatura er öllu nýrra.

„Eyrir Sprotar koma inn í KeyNatura árið 2016 með 311 milljónir til að fjármagna uppsetninguna á fyrstu þörungaframleiðslunni hjá okkur. Þannig var hægt að færa hana úr bílskúrnum og í framleiðslu í stærri stíl, þó enn væri það bara á litlum skala,“ segir Lilja sem segir framleiðsluna ekki anna eftirspurn í dag.

Sjöfn Sigurgísladóttir, framkvæmdastjóri SagaNatura, segir félagið því nú standa í stækkun framleiðslunnar í kjölfar sameiningar. „Við kláruðum fjármögnun upp á 180 milljónir frá nýjum fjárfestum og erum því nú að stækka framleiðsluna um 150%,“ segir Sjöfn. Lilja og Sjöfn segja stækkunina fara fram í þremur áföngum en fyrsti hlutinn verður tilbúinn um áramót og síðasti hlutinn snemma í vor.

„Síðan erum við með enn frekari stækkunarplön til ársins 2022 en þau munu útheimta að við förum í annað húsnæði. Þá erum við að horfa á að vera komin upp í tífalda stækkun miðað við það sem við erum með núna,“ segir Lilja.

„Samlegðaráhrifin milli fyrirtækjanna felast í því að bæði félögin eru að vinna með plöntur og virk efni úr þeim. SagaMedica vinnur hvönn úr Hrísey og er komið með sterk viðskiptasambönd og góða sölu erlendis, til að mynda í Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð og á Nýja-Sjálandi.

KeyNatura hefur svo verið að selja til Kína, en þeim megin erum við svo með öflugan hóp af matvælafræðingum, vísindamönnum, sölu- og markaðsmönnum sem græða á viðskiptasamböndunum sem SagaMedica hefur byggt upp og öfugt.

SagaMedica getur svo núna nýtt þá nýsköpun sem er sterk innan KeyNatura-hópsins. Við erum til dæmis strax byrjuð að endurhanna sumar vörurnar því í þessum fæðubótarbransa þarf að passa að fylgja ýmsum reglugerðum um hvað við segjum um þær, en nú ætti að vera auðveldara að auglýsa og segja neytendanum hvað vörurnar gera.“