Endurgreiðslur ríkisins til erlendra kvikmyndaverkefna hér á landi hafa ekki verið lægri í sex ár þrátt fyrir að endurgreiðslur hafi verið hækkaðar úr 20% í 25% í byrjun árs 2017. Framleiðendur segja sterkt gengi krónunnar hafa setti strik í reikninginn. Áhugi erlendra aðila sé hins vegar farinn að glæðast á ný eftir veikingu krónunnar á síðustu mánuðum. Endurgreiðslur vegna erlendra verkefna námu 335 milljónum króna í fyrra og 534 milljónum árið 2017 en voru til samanburðar nærri 1,1 milljarði króna árið 2016. Út frá þessu má áætla að umsvif styrkhæfrar erlendrar kvikmyndagerðar hér á landi hafi numið um 1,5 milljörðum króna í fyrra og ríflega 2 milljörðum króna árið 2017 en til samanburðar nam veltan árið 2016 um 5 milljörðum króna.

Kristinn segir að kvikmyndagerð erlendra framleiðenda hér á landi hafi dregist verulega saman árið 2017 og fram eftir ári 2018 á meðan gengi krónunnar var sem sterkast. „Eins og aðrar útflutningsgreinar þá fundum við illa fyrir því,“ segir hann. „Flest framleiðslufyrirtækin koma hingað út af landslaginu og því sem við höfum upp á að bjóða. En ef kostnaðurinn er mun hærri hérna á Íslandi en annars staðar þá fara þau bara eitthvert annað. Þetta er einfalt reikningsdæmi.“ „Við finnum fyrir töluverðum áhuga aftur og það eru nokkur verkefni staðfest á þessu ári. 2019 lítur töluvert betur út í þeim geira.“

Íslenskan sjaldan útbreiddari

Á móti hafa hins vegar umsvif innlendra kvikmyndaverkefna aukist, sér í lagi íslenskrar þáttagerðar. Endurgreiðslur til innlendra verkefna námu 700 milljónum króna í fyrra en námu 427 milljónum króna árið 2017. „Eftirspurnin eftir íslensku sjónvarpsefni hefur aukist gríðarlega síðustu 4 til 5 árum. Það sem hefur breyst með streymisveitum er að erlendis er fólk að venjast því að horfa á textað sjónvarpsefni,“ segir Kristinn Þórðarson, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda og framleiðandi hjá Truenorth. Fólk sé orðið vanara því að horfa á sjónvarpsefni á öðru tungumáli en sínu móðurmáli, þar með talið sjónvarpsþáttum á íslensku.

„Ég held að tungumálið okkar hafi sjaldan verið í jafn mikilli dreifingu og undanfarin misseri,“ segir hann. Þar að leiðandi hafi skapast tækifæri til að selja þáttaraðir til erlendra sjónvarpsstöðva á borð við Ófærð, Fanga, Stellu Blómkvist, Flateyjargátuna sem og Valhallarmorðin sem nú eru í tökum hjá Truenorth, Mistery og RÚV. Algengt sé að íslenskar þáttaraðir séu fjármagnaðar til um helminga utan Íslands, en þáttaraðirnar hér á landi kosti frá 400 milljónum og upp í milljarð króna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .