Félag atvinnurekenda segir Íslandspóst hafa tekið ákvörðun um að sameina rekstur dótturfélagsins ePósts við móðurfélagið án samþykktar Samkeppniseftirlitsins, þvert á sátt við stofnunina þar að lútandi.

Segist félagið hafa gögn sem sýni þetta, en samkvæmt bréfi Íslandspósts til eftirlitsnefndar um framkvæmd sáttarinnar var sameiningin samþykkt í stjórn 25. júní síðastliðinn. FA hefur beðið um sjálfstæða úttekt á rekstri Póstsins eftir að það fór fram á 1,5 milljarða lán frá ríkinu.

Bréfið var hins vegar sent 12. október, þremur dögum eftir kvörtun FA til eftirlitsnefndarinnar vegna þess að í ársreikningi ePósts ehf. komu ekki fram vaxtagjöld til móðurfélagsins vegna 283 milljóna króna láns milli félaganna eins og sáttin hafði einnig kveðið á um.

Í bréfinu er leitast eftir afstöðu eftirlitsnefndarinnar til samrunans, fjórum mánuðum eftir samþykkt hans, og ástæðan fyrir samrunanum sagður að upphaflegur tilgangur félagsins hafi ekki gengið eftir. Til viðbótar virðist sem Ingimundur Sigurpálsson forstjóri Íslandspósts vísi í að ákvörðun hafi verið tekin um sameininguna árið 2017, sem skýringu á því að vextirnir hafi ekki verið reiknaðir í bréfi til eftirlitsnefndarinnar.

Hálfur milljarður fæst ekki endurgreiddur

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA segir að væntanlega muni móðurfélagið aldrei fá lán sín til ePósts endurgreidd, enda hafi félagið fengið 9 milljónir í tekjur frá öðrum aðilum en móðurfélaginu sjálfu á árinu 2017.

Eðlilegir vextir af lánunum frá árinu 2013 myndu láta þau nema um hálfum milljarði nú, sem er þriðjungur þeirrar upphæðar sem fyrirtækið fer fram á að fá í lán frá ríkinu, hvers efnis frumvarp hefur verið lagt fyrir þingið. Ólafur bendir á að starfsemi ePósts hafi misheppnast og móðurfélagið muni væntanlega aldrei fá lán sín til félagsins endurgreidd.

Tekjur félagsins frá öðrum en Póstinum eða tengdum félagsins hafi á árinu 2017 verið tæpar níu milljónir króna. Hefðu eðlilegir vextir verið reiknaðir á lánin frá árinu 2013 væru þau nú nær hálfum milljarði, sem er þriðjungur þeirrar upphæðar sem Íslandspóstur fer fram á í lán frá skattgreiðendum til að afstýra greiðsluþroti félagsins.

„Þetta mál sýnir ágætlega fram á þörfina á að gerð sé óháð úttekt á starfsemi Íslandspósts, eins og Félag atvinnurekenda hefur lagt til við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,“ segir Ólafur.

„Þetta er ekki fyrsta dæmið um að Íslandspóstur skeyti engu um ákvæði sáttarinnar við Samkeppniseftirlitið. Félagið hefur gengið hart fram gagnvart ýmsum keppinautum eftir að sáttin var gerð. Póst- og fjarskiptastofnun og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafa til dæmis stöðvað fyrirtækið í að ýta keppinautum í póstsöfnun út af markaðnum.“

Vilja margfalda gjöld af pakkasendingum

Hluti af skuldinni vill Íslandspóstur meina að komi til vegna niðurgreiðslna á póstsendingum frá Kína, en á sama tíma og félagið tapaði 1,1 milljarði af því, nam hagnaður félagsins af einkarekstrinum tæplega 900 milljónum króna.

Samtök verslunar og þjónustu segir niðurgreiðslurnar skekkja samkeppnisstöðu íslenskrar netverslunar við verslun frá Kína, en niðurgreiðslurnar byggja á aldagömlum alþjóðlegum póstsamningi þar sem Kína er skilgreint sem þróunarríki.

„Nú hefur komið í ljós að það umsýslugjald sem Íslandspóstur rukkar til að mæta kostnaði við sendingar frá Kína, er mun lægra en á hinum Norðurlöndunum, eða 595 krónur á sendingu. Norski pósturinn rukkar um 2.400 krónur í umsýslugjald á hverja sendingu og í Svíþjóð er sambærilegt gjald um 1.100 krónur,“ benda samtökin á í yfirlýsingu og segja hve gjaldið er lágt auka enn á ójafna samkeppnisstöðu.

„Endurspegla gjöld þessi í nágrannaríkjum okkar þá afstöðu þarlendra aðila um að láta innlenda neytendur ekki niðurgreiða pakkasendingar að utan og að slíkur kostnaður, eða svo næst raunkostnaði, sé þess í stað borinn af viðkomandi kaupanda hverju sinni.“ Vilja samtökin því að gjöldin séu hækkuð, bæði til að jafna samkeppnisstöðuna og til að minnka rekstrarhalla á starfsemi Íslandspósts.