Gengi hlutabréfa Apple hefur fallið um rúmlega 5,8% í dag. Félagið birti afkomutölur sínar í gær, sem voru að sumu leyti undir væntingum og að öðru leyti yfir væntingum.

Til að mynda dróst sala iPhone-snjallsíma fyrirtækisins saman, og sérstaklega í Kína. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um afkomu fyrirtækisins í morgun.

Fyrirtækið birti spá fyrir næsta ársfjórðung. Þar er gert ráð fyrir því að tekjur muni vera á bilinu 50-53 milljarðar dala. Miðað við miðgildi milli talnanna, 51,5 milljarða dala, þá er það 11% lækkun í tekjum frá sama ársfjórðungi árið áður.

Þetta yrði þá í fyrsta skipti siðan árið 2013 sem tekjur fyrirtækisins lækka milli ára.

Á sama tíma og Apple lækkar hefur Standard & Poor’s vísitalan lækkað um tæplega hálfa prósentu í dag, en vísitalan hefur lækkað um tæp 8% frá byrjun árs.

DJIA (Dow Jones Industrial Average) er á svipuðu róli, en hún hefur lækkað um 0,60 í dag og um 8,34% frá ársbyrjun.