Elísabet Grétarsdóttir hefur alltaf vitað að hún vildi vinna við markaðsmál. Hennar fyrsta reynsla af markaðsmálum var sæti í auglýsinganefnd í skólanum þegar hún var 13 ára, og í dag er hún með meistaragráðu í markaðsmálum og yfir áratugs starfsreynslu á sviðinu.

Hún hefur nú verið markaðsstjóri tölvuleiksins Battlefield – sem framleiddur er af Dice, dótturfyrirtæki tölvuleikjarisans EA Games – undanfarin þrjú ár, en Battlefield leikirnir eru með þeim vinsælustu í heimi, enda gríðarlega mikið í þá lagt. Nú í haust var henni svo boðin ný staða hjá fyrirtækinu, sem hún hefur þegar hafist handa við að undirbúa, og mun svo taka við af fullum krafti eftir fæðingarorlof, en hún eignaðist á dögunum sitt þriðja barn.

Mikilvægt að skipuleggja starfsferilinn vel
Segja má að Elísabet hafi ákveðið hvernig hún vildi að ferilskráin myndi líta út, og síðan hafist handa við að fylla upp í eyðurnar. Hún setti sér ung háleit markmið, meðal annars að verða markaðsstjóri yfir stóru Íslensku fyrirtæki fyrir fertugt. Svo fór að það náðist fyrir þrítugt. „Ég settist bara niður og reiknaði aftur á bak hvað ég þyrfti að geta og hafa afrekað til að vera hæf í slíka stöðu, og bjó til ákveðinn lista af reynslu sem ég yrði að komast yfir. Sá listi varð í raun svolítið lýsandi viti þegar ég sá síðan tækifærin fyrir framan mig, hvort sem það voru ný störf, nám, eða verkefni innan fyrirtækisins.“

Staðan búin til sérstaklega fyrir hana
Elísabet ber Dice góða söguna og er spennt fyrir nýja hlutverkinu, sem snýst um að halda utan um félagslegan þátt og kerfi tölvuleikja fyrirtækisins. „Eftir góðan árangur í marksdeildinni ákvað ég að venda kvæði mínu í kross og fékk frábært tækifæri hjá EA og tók að mér hlutverk innan þróunarteymi Dice sem yfirhönnuður félagslegra kerfa (e. director of social systems). Þetta er í fyrsta skipti sem Dice býr til stöðu fyrir manneskju sem sér sérstaklega um það að vinna gagngert og heildstætt að því hvernig leikirnir geta búið til sterkari tengsl milli spilara. Ég verð í rauninni aðal strategistinn hjá Dice í að vinna með það. Ekki bara fyrir Battlefield heldur hvern þann leik sem Dice tekur sér fyrir hendur að vinna með.“

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar um fólk á uppleið í atvinnulífinu. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi að Frjálsri verslun hér.