Hagnaður spænska risabankans Banco Santander dróst saman um fjórðung á milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Hann nam 1,6 milljörðum evra en var 2,11 milljarðar á sama tíma í fyrra. Þetta er undir væntingum meðalspá Bloomberg og skýrist af samdrætti á nær öllum þeim svæðum sem bankinn starfar á beggja vegna Atlantsála.

Banco Santander er stærsti banki Spánar en sömuleiðis umsvifamikill í Bretlandi, Mexíkó, Brasilíu og í Argentínu. Hrun spænsks efnahagslífs, sér í lagi verðhrun á fasteignamarkaði, hefur farið illa með efnahagsreikning bankans. Þá hafa viðskipti bankans verið lítið skárri í Bretlandi auk þess sem dregið hefur úr tekjum bankans í Brasilíu samhliða kólnun hagkerfisins þar í landi.

Fjármálayfirvöld á Spáni hafa í skugga stöðunnar á fasteignamarkaði þrýst á banka og fjármálastofnanir að færa hærri upphæðir af lánasöfnum sínum á afskriftareikning. Þetta á bæði við um íbúðalán til einstaklinga og fyrirtækjalán.

Bankinn hefur færði fjóra milljarða evra af lánum af þessu tagi á afskriftareikning á fjórða ársfjórðungi.

Reyna að selja eignir

Stjórnendur Banco Santander hafa stefnt að því að vega upp á móti tapinu með sölu eigna. Bankinn uppskar ríkulega eftir skráningu bankans á markað í Brasilíu árið 2007 og hefur leitast við að endurtaka leikinn í fleiri löndum. Í netútgáfu bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal kemur fram að horft sé til skráningar í Mexíkó og sé enn stefnt að svipuðum skrefum í Bretlandi og í Argentínu. Stefnt var að skráningu í löndunum tveimur fyrir nokkrum misserum síðan en áformin lögð á hilluna vegna erfiðra aðstæðna á fjármálamörkuðum.