Bankaskattur verður hækkaður til að fjármagna skuldaniðurfellingar fyrir heimilin. Þetta staðfesti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundi í Hörpu í dag.

Bjarni rakti að breytingar hafi verið boðaðar á bankaskatti í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Undanþága sem fjármálastofnanir í slitameðferð höfðu, yrðu afnumdar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Nú þætti rétt að halda áfram og hækka þennan skatt enn frekar. „Með því móti munu áhrifin af þeim aðgerðum sem eru kynntar hér til sögunnar á rikissjóð verða engin,“ sagði Bjarni. Hann benti enn fremur á að aðgerðin yrði að koma til framkvæmdar á nokkrum árum.

Bæði slitastjórnir Kaupþings og Glitnis hafa mótmælt bankaskattinum eins og hann kemur fyrir í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Slitastjórn Glitnis hefur sagt að til greina komi að slitastjórnin leiti réttar síns fyrir stjórnvöldum og dómstólum verði skattur lagður á þrotabú bankanna.