Sjóðfélagar Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs samþykktu á aukaársfundum í dag að sameina sjóðina, en sameiningin hefur verið í bígerð um nokkurt skeið. Í kjölfarið var haldinn stofnfundur nýja sjóðsins sem hlotið hefur nafnið Birta lífeyrissjóður.

Í tilkynningu kemur fram að nýr lífeyrissjóður verður sá fjórði stærsti á Íslandi með yfir 18.000 virka sjóðfélaga og hreina eign upp á um 310 milljarða króna, sem er um tíundi hluti heildareigna allra lífeyrissjóða landsins.

Á stofnfundinum var kynnt tíu manna stjórn Birtu og meðal fyrstu verkefna hennar eru að ráða framkvæmdastjóra nýja lífeyrissjóðsin og finna sjóðnum húsnæði til framtíðar. Stefnt er að því að starfsemi í nafni Birtu lífeyrissjóðs hefjist fyrir lok ársins, undir sama þaki.

Viðræður um sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa hófust í byrjun maí 2016. Sameinaði lífeyrissjóðurinn varð til í ársbyrjun 1992 með sameiningu Lífeyrissjóðs byggingarmanna og Lífeyrissjóðs málm- og skipasmiða. Síðar bættust við lífeyrissjóðir bókagerðarmanna, garðyrkjumanna, múrara, verkstjóra og fleiri. Stafir lífeyrissjóður varð til við samruna Samvinnulífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðsins Lífiðnar í ársbyrjun 2007. Til Stafa greiða starfsmenn fyrirtækja sem áður tilheyrðu Sambandi íslenskra samvinnufélaga og félagsmenn í Rafiðnaðarsambandi Íslands og Matvæla- og veitingafélagi Íslands.