Þórður Ásmundsson hefur verið ráðinn til að gegna starfi framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar til bráðabirgða eftir að stjórn fyrirtækisins ákvað á fundi um miðjan dag í gær að binda enda á ráðningu fyrrverandi framkvæmdastjóra.

Bjarni Már Júlíusson, sem ráðinn var til starfa í nóvember 2016, hefur látið af störfum. Starfslok fyrrverandi framkvæmdastjóra eru sögð í fréttatilkynningu tengjast tilvikum þar sem framkoma hans gagnvart samstarfsfólki var óviðeigandi. Það er tekið alvarlega af stjórn Orku náttúrunnar segir þar jafnframt.

Starfið verður auglýst laust til umsóknar á næstunni. Þórður hefur starfað hjá Orku náttúrunnar frá stofnun, árið 2014, fyrst sem verkefnisstjóri og síðan sem forstöðumaður tækniþróunar.

Þórður Ásmundsson, forstöðumanns Tækniþróunar Orku náttúrunnar
Þórður Ásmundsson, forstöðumanns Tækniþróunar Orku náttúrunnar
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Þórður útskrifaðist sem vél- og orkutæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Þórður var verkefnastjóri hjá ON frá stofnun fyrirtækisins 2014 og var meðal annars verkefnisstjóri lagningar Hverahlíðarlagnar.

Þar áður vann hann hjá verkfræðistofunni Mannviti ehf. í níu ár, 1995-2014, við verkefnaeftirlit, verkefnastjórn og síðast sem viðskiptastjóri. Hann tók við starfi forstöðumanns Tækniþróunar ON í febrúar 2017.