Gengið hefur verið frá kaupum BNT hf., sem meðal annars er eigandi N1, á 49% hlut í danska úthafsolíufélaginu Malik Supply a/s að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Seljandi hlutarins er stofnandi og aðaleigandi félagsins frá upphafi, Morten Jacobsen. 51% hlutur í Malik Supply a/s verður í höndum starfsmanna þess.

Malik Supply a/s var stofnað fyrir um 20 árum, en upphaf félagsins má rekja til þjónustu þess við grænlensk útgerðarfélög. Félagið er með aðsetur í Álaborg í Danmörku og nam velta þess á síðasta ári um 6 milljörðum íslenskra króna. Megináherslur í rekstri Malik Supply a/s er sala eldsneytis til útgerðaraðila á NV-Atlantshafi, bæði frá birgðaskipum en einnig sem umboðsaðili. Malik Supply a/s er meirihlutaeigandi af Íslenskri olíumiðlun ehf., sem á og rekur eldsneytisbirgðastöð á Neskaupsstað.

Með kaupum BNT hf. á stórum hlut í Malik Supply a/s tryggir félagið sér aðgang að víðtækari viðskiptasamböndum, reynslu og þekkingu á eldsneytismarkaðinum á NV-Atlantshafi en áður hefur verið segir í tilkynningu.

Kaupverð er trúnaðarmál milli kaupanda og seljanda.