*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 14. júlí 2018 17:02

Býst við frekari skilyrðum

Sérfræðingur í samkeppnisrétti á von á að farið verði fram á frekari skilyrði ef samþykkja eigi samruna Haga og Olís annars vegar og N1 og Festar hins vegar.

Ingvar Haraldsson
Von er á niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í samrunamálunum á næstu vikum.
Haraldur Guðjónsson

Eggert  B. Ólafsson, lögmaður og sérfræðingur í samkeppnisrétti, telur ólíklegt að fyrirhugaðar sameiningar Haga og  Olís  annars vegar og  N1  og Festar hins vegar verði samþykktar án þess að Samkeppniseftirlitið (SKE) setji frekari skilyrði við þær tillögur sem fyrirtækin hafa þegar lagt fram. Engu síður séu tillögur um sölu á hluta starfsemi félaganna líklega þær umfangsmestu sem lagðar hafa verið fram í samrunamálum hér á landi að sögn Eggerts.

Hagar og Olís hafa lagt til sölu verslana Bónuss í Faxafeni og á Hallveigarstíg í Reykjavík og Smiðjuvegi í Kópavogi auk þriggja bensínstöðva Olís og ÓB  í Reykjavík og Kópavogi og þurrvöruhluta verslunar  Olís  í Stykkishólmi. Það sé gert til að vinna gegn neikvæðum áhrifum sem Samkeppniseftirlitið telur að hljótist af samrunanum. Þá hefur N1 boðist til að selja  vörumerkið  Dæluna auk þeirra þriggja bensínstöðva sem reknar eru undir merkjum Dælunnar. Festi hefur einnig boðist til að selja verslun Kjarvals á Hellu. „Almennt er talið í samkeppnisrétti að söluskilyrði séu mun áhrifameiri en svonefnd hegðunarskilyrði,“ bendir Eggert á.

Óljóst hverjir gætu keypt verslanir

Eggert segir að Samkeppniseftirlitið virðist hafa greint svæði þar sem það telur að sameiningarnar hafi staðbundin en óheppileg áhrif á samkeppni. Tillögur um sölu verslunar Kjarvals á Hellu og þurrvöruhluta Olísverslunar í Stykkishólmi virðast vera til þess fallnar að vinna gegn þessum áhyggjum að sögn Eggerts. „Það er hins vegar spurning hvort Samkeppniseftirlitið telji að tillögurnar gangi nógu langt,“ segir Eggert. Hugsanlega þurfi samrunaaðilarnir að selja fleiri verslanir á skilgreindum svæðum til að kveða niður áhyggjur eftirlitsins

Eggert veltir því upp hvort sala þriggja Bónusverslana af 32 verslunum og þriggja bensínstöðva bæði  Olís  og  N1  af tugum bensínstöðva dugi til að vinna gegn neikvæðum áhrifum á þeim samkeppnismörkuðum sem félögin starfi á. „Samkeppniseftirlitið  þarf að gera upp við sig hvernig það svarar þessari spurningu,“ segir hann. Að líkindum muni afstaða Samkeppniseftirlitsins að einhverju leyti ráðast af umsögnum sem eftirlitinu berist. Einnig sé ekki víst að mögulegir kaupendur að verslunum og bensínstöðvum séu til innanlands. „Við á  Íslandi erum í dálítilli klemmu. Á Íslandi hafa samkeppnisreglur jafn mikið vægi og í stærri hagkerfum en vegna smæðar íslands er kannski ekki burðugum aðilum til að dreifa í slíkum tilfellum,“ segir Eggert.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir gagnaöflun enn standa yfir í báðum samrunamálunum. Því liggi endanleg ákvörðun ekki fyrir en niðurstaða muni fást í málin á næstu vikum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim