Dunkin' Donuts hefur skrifað undir sérleyfissamning við íslenska fyrirtækið Drangasker ehf., dótturfélag 10-11, um að hefja undirbúning að opnun Dunkin´ Donuts veitingastaða á Íslandi. Samningurinn gerir ráð fyrir opnun sextán Dunkin' Donuts veitingastaða víða um land á næstu fimm árum, en flestir þeirra verða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Nú þegar við höldum áfram með útbreiðslu Dunkin´ Donuts um Evrópu tilkynnum við með ánægju komu okkar til Íslands,“ segir Paul Twohig, forstjóri Dunkin' Donuts í Bandaríkjunum og Kanada og eins forstjóri Dunkin' Donuts & Baskin-Robbins í Evrópu og Suður-Ameríku.

„Forsvarsmenn nýja sérleyfisins okkar á Íslandi, 10-11, búa yfir ríkri reynslu í heimi smásölu og viðskipta þar í landi. Við hlökkum til að vinna með þeim að því að færa viðskiptavinum okkar víða um land hágæða Dunkin´Donuts mat og drykk,“ bætir hann við.