Geimflaugafyrirtækið Blue Origin, sem er í eigu Jeff Bezos stofnanda og forstjóra Amazon, mun rukka farþega á bilinu 200-300 þúsund dollara eða því sem nemur 21-32 milljónum íslenskra króna þegar fyrirtækið hefur geimferðir sínar á næsta ári. Þetta hefur Reuters fréttastofan eftir heimildarmönnum sem standa nálægt fyrirtækinu. Til samanburðar má nefna að ferðir með geimferðafyrirtæki Richard Branson, Virgin Galactic kosta um 250 þúsund dollara.

Er þetta í fyrsta sinn sem fréttir berast af verði á geimferðum með New Shepard geimflaug fyrirtækisins. Flaugin er hönnuð til þess að geta flogið sjálfvirkt með 6 farþega í um 100 km hæð yfir jörðinni. Er það nógu hátt til að farþegar finni fyrir þyngdarleysi í nokkrar mínútur áður en geimfarið snýr aftur til jarðar með notkun fallhlífa.

Félagið hefur nú þegar lokið átta tilraunaflugum frá skotpalli sínum í Texas, en enginn farþegi hefur þó verið um borð.