*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Innlent 30. ágúst 2017 13:57

Eftirspurn mætt með erlendu starfsfólki

Vinnumarkaðurinn um þessar mundir er mjög kröftugur og mikilli eftirspurn eftir vinnuafli er að mestu leyti mætt með erlendu vinnuafli.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Atvinnuleysi mældist einungis 1% í júlí samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Atvinnulausir eru 2.000 færri en í júlí 2016 og var hlutfall atvinnulausra þá 2%. Í Hagsjá Landsbankans segir að í því þensluástandi sem nú ríki á íslenskum vinnumarkaði, er eftirspurn eftir vinnuafli að mestu leyti mætt með innflutning á erlendu starfsfólki. 

Á öðrum ársfjórðungi þessa árs voru erlendir ríkisborgarar hér á landi um 35.500 eða um 10% þjóðinni og hafði þeim fjölgað um 5.600, eða 19% á einu ári. „Á fjórðungnum var fjöldi aðfluttra erlendra ríkisborgara umfram brottflutta 3.130 manns, þar af voru þrír af hverjum fjórum á aldrinum 20-39 ára,“ segir í Hagsjánni. 

Stór hluti fyrirtækja vantar starfsfólk

Til viðbótar er bent á að vitað er að erlendu starfsfólki hafi fjölgað mikið, en ekki séu til áreiðanlegar tölur um innflutning á tímabundnu vinnuafli. Í nýlegri grein Morgunblaðsins þar sem fjallað er um skýrslu Vinnumálastofnunar þar sem kemur fram að erlendum starfsmönnum sem eru hér á landi á vegum starfsmannaleiga fjölgar ört. Spáir Vinnumálastofnun fjölgun starfsmanna starfsmannaleiga á næstu mánuðum. 

Stór hluti fyrirtækja á Íslandi telur sig enn búa við skort á starfsfólki og hefur sú staða lítið breyst á milli ára. Það er því að mati Hagfræðideildar Landsbankans nokkuð ljóst að vinnumarkaðurinn er mjög kröftugur um þessar mundir og er mikilli eftirspurn eftir vinnuafli að mestu leyti mætt með erlendu starfsfólki. 

Í niðurstöðum nýrrar könnunar Gallup, sem framkvæmd var fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands, meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins kemur fram að skortur á starfsfólki er svipaður og í síðustu könnun, en 42% stjórnenda telja fyrirtæki þeirra búa við skort á starfsfólki. Þá sér skorturinn langmestur í fjármálastarfsemi, næst mestur í sjávarútvegi, og þar á eftir í iðnaði. Hins vegar er minnstur skortur á starfsfólki í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.