*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Fólk 21. nóvember 2017 16:04

Eiður ráðinn forstöðumaður hjá VÍS

Eiður Eiðsson hefur verið ráðinn forstöðumaður stafrænna verkefna hjá VÍS en hann kemur frá Arion banka.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Eiður Eiðsson hefur verið ráðinn forstöðumaður stafrænna verkefna hjá VÍS. Hann mun hafa umsjón með þróun og innleiðingu stafrænna lausna en VÍS stefnir að því að vera leiðandi í stafrænum lausnum að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Eiður kemur til VÍS frá Arion banka þar sem hann var verkefnastjóri í Stafrænni framtíð og kom þar að mörgum af stærstu upplýsingatækniverkefnum sem bankinn hefur ráðist í á undanförnum árum. Hann er viðskiptafræðingur og býr yfir meira en 20 ára reynslu úr upplýsingatæknigeiranum. Eiður kemur til starfa um miðjan desember.

„Við hjá VÍS ætlum að veita viðskiptavinum okkar bestu tryggingaþjónustu sem völ er á. Til þess ætlum við að nýta framfarir í stafrænni tækni sem við trúum að séu lykillinn að einfaldari og betri þjónustu. Eiður er frábær liðsstyrkur fyrir þá vegferð og ég er ekki í nokkrum vafa um að hans reynsla og þekking eigi eftir að reynast mikilvæg í þeim verkefnum sem eru fram undan,“ er haft eftir Guðnýju Helgu Herbertsdóttur, framkvæmdastjóra Stafrænnar þróunar.