Hagvöxtur næsta árs mun valda vonbrigðum að mati Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Þetta segir hún í aðsendri grein í þýska viðskiptablaðinu Handelsblatt sem kom út í morgun.

Hækkandi vextir í Bandaríkjunum og minnkandi hagvöxtur í Kína munu eiga stóran þátt í að auka óvissu á alþjóðamörkuðum og munu þessir þættir auka viðkvæmni hagkerfa í heiminum að hennar mati. Því til viðbótar hefur dregið þó nokkuð úr alþjóðaviðskiptum auk þess sem að lækkun hrávöruverðs hefur haft neikvæð áhrif á hagkerfi sem eru háð framleiðslu þeirra.

„Allt þetta þýðir að hagvöxtur á heimsvísu muni valda vonbrigðum og verða ójafn árið 2016,“ sagði Lagarde í grein sinni og bætti því við að lítil framleiðni og breytt aldurssamsetning muni hamla vexti.