Í nýliðnum aprílmánuði flutti Icelandair 268 þúsund farþega, sem er 2% fækkun frá sama tímabili í fyrra. Herbergjanýting á hótelum félagsins dróst einnig saman, en hún var 70,7% í ár samanborið við 72,9% fyrir ári. Í tilkynningu frá félaginu er tekið fram að páskar hafi komið upp í aprílmánuði í fyrra en í mars í ár, sem hafi áhrif á samanburð á milli ára í bæði farþegaflugi og hótelrekstri.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá fjölgaði farþegum með Wow air um 9% ef miðað er við sama tímabil, en hitt íslenska flugfélagið flutti 237 þúsund farþega í aprílmánuði í ár.

Sætanýting í vélum Icelandair nam 77,2% samanborið við 82,6% í sama mánuði fyrir ári. Fjölgun var á farþegum á N-atlantshafsmarkaðnum milli ára en fækkun á ferðamannamarkaði til Íslands og heimamarkaði frá Íslandi.

Sætanýting Wow air var hins vegar 91% í apríl í ár, sem er aukning úr 88% fyrir ári, en þessi aukning er þrátt fyrir 8% meira sætaframboð nú en fyrir ári.

Fjölgun, aukið framboð en samt meiri nýting í innanlandsflugi

Á sama tíma fjölgaði hins vegar farþegum gamla Flugfélags Íslands, innanlandsflugsarmi Icelandair sem nú ber nafnið Air Iceland Connect, um 7% á milli ára.

Sætanýtingin hjá því félagi jókst á milli ára úr 60,6% í 63,3%, sem er á sama tíma og framboð félagsins var aukið um 16% frá því í apríl 2017. Voru farþegar þess í apríl 2018 tæplega 28 þúsund en rétt rúmlega 26 þúsund í apríl í fyrra.

Fjöldi seldra blokktíma í leiguflugfélagi Icelandair jókst svo um 54% á milli ára, fraktflutningar jukust svo um 9% frá því á síðasta ári.