Fimm nýir starfsmenn hafa tekið til starfa hjá stafræna vöruþróunarfyrirtækinu Kolibri. Þrír hugbúnaðarsérfræðingar, einn hönnuður og einn rekstrarstjóri. Kolibri er með höfuðstöðvar á Laugavegi 26. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Davíð Brandt er með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur áður unnið hjá m.a. OZ, CCP, Marimo, Networked Anternate Reality Creations og Aegos auk þess sem hann stofnaði fyrirtækið Giosk.

Þröstur S. Eiðsson er tölvunarfræðingur úr Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði áður hjá Friðriki Skúlasyni ehf. og Point Transactions Systems á Íslandi.

Högni Gylfason er hugbúnaðarsérfræðingur og forritari og hefur unnið á sviði hugbúnaðar frá árinu 2000. Hann hefur áður starfað hjá Gæðamiðlun, Atom 01 og Vátryggingafélagi Íslands.

Helgi Páll Einarsson er grafískur hönnuður sem lauk námi í Listaháskóla Íslands árið 2007. Frá útskrift hefur hann starfað sjálfstætt og á auglýsingastofum en síðast gegndi hann stöðu „interactive art director“ hjá ENNEMM.

Haukur Sveinsson hefur tekið við starfi rekstrarstjóra Kolibri en hann útskrifaðist með B.A.-gráðu í stjórnmálafræði með fjölmiðlafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2011 og lauk meistaranámi í stjórnun í skapandi fyrirtækjum frá University of Warwick í Bretlandi árið 2013. Haukur starfaði hjá Tryggingamiðstöðinni á árunum 2006-2009 auk þess að starfa plötusnúður og umboðsmaður hljómsveita 2006-2011. Frá 2012 hefur Haukur starfað sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði viðskiptaþróunar og markaðsmála.

Um Kolibri

Kolibri varð til eftir sameiningu Form5 og Spretts. Form5 vann til allra helstu vefverðlauna sem veitt voru hér á landi í fyrra fyrir vef Nikita Clothing, og var hann þ.m.t. valinn besti vefurinn á SVEF, vefur ársins á NEXPO og hlaut Form5 verðlaun FÍT fyrir best hönnuðu vefsíðuna. Þar að auki hlaut Kolibri nýverið alþjóðlegu Umbraco hönnunarverðlaunin fyrir nýjan vef 66°N.

20 forritari og hönnuður starfa hjá Kolibri á Laugavegi 26 í Reykjavík. Fyrirtækið sérhæfir sig í að hanna og þróa stafrænar upplifanir fyrir viðskiptavina sína.

Á meðal viðskiptavina Kolibri eru Vodafone, Össur, 66°Norður, Tryggingamiðstöðin, Nikita Clothing,  Nova, Sjóvá, Eimskip og Salomon. Fyrirtækið dregur nafn sitt af kólíbrífuglinum sem er eitt best hannaða dýr fuglaríkisins og ástríðutákn ýmissa menningarheima.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Davíð Brandt

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Helgi Páll Einarsson

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þröstur S. Eiðsson

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Högni Gylfason