*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 10. júlí 2012 11:49

Fjöldi leigusamninga á niðurleið

Þinglýstum leigusamningum fjölgaði á milli mánaða í júní en hefur þó fækkað nokkuð á milli ára.

Ritstjórn
Leigusamningum hefur fækkað nokkuð á milli ára.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Alls var 468 leigusamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í júní sl., sem er um 14% fjölgun samninga á milli mánaða. Leigusamningum á höfuðborgarsvæðinu hefur þó fækkað um rúm 5% á milli ára.

Þá var 696 leigusamningum þinglýst á landinu öllu í júní sem þýðir fjölgun samninga um rúm 13% á milli mánaða samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands. Samningum á landinu öllu hefur fækkað um rúm 4% á milli ára. 

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið var flestum samningum þinglýst á suðurnesjum og norðurlandi, 75 samningum í hvorum landshluta. Þá var 33 samningum þinglýst á Suðurlandi og 25 samningum á Vesturlandi.

Loks var 7 samningum þinglýst á Vestfjörðum og 13 samningum þinglýst á Austurlandi.

Á síðasta ári var um 9..950 samningum þinglýst á landinu öllu, samanborið við tæplega 10.00 samninga árið 2010. Þar af var um 6.350 samningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu, samanborið við um 6.850 samninga árið 2010. Það sem af er þessu ári hefur um 4.000 samningum verið þinglýst á landinu öllu, þar af um 2.650 samningum á höfuðborgarsvæðinu.

Á myndinni hér að neðan sést þróun á fjölda leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu sl. 2 ár. Þar sést hvernig þinglýstum leigusamningum hefur fækkað nokkuð frá því að fjöldi þeirra náði hámarki haustið 2010. Fjöldinn tók kipp upp á við sl. haust en hefur síðan þá fækkað nokkuð.