Hver sá sem verður kjörinn næsti forseti Frakklands, kemur til með að taka við nokkuð þröngu búi. Í dag gaf framkvæmdaráð Evrópusambandið út efnahagsspá fyrir aðildarríki sín. Þar var varað við að fjárlagahalli franska ríkisins yrði 3,1% af vergri landsframleiðslu, sem er yfir viðmiði ESB (3%). Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Því virðist næsta víst að Frakklandsforseti, þyrfti strax að munda niðurskurðarhnífinn, ef á að ná markmiðum Evrópusambandsins. Nú er eitt helsta baráttumálið í kosningunum hvort að Frakkar eigi að berjast gegn fjárhagsáætlunarreglum ESB eða spila eftir þeim.

Emmanuel Macron, frambjóðandi miðjuflokksins En Marche! sem þykir líklegur til sigurs, vill virða reglur ESB og segir að það myndi auka trúverðugleika Frakka að ná markmiðum sambandsins. Helsti andstæðingur hans, Marine Le Pen, vill hins vegar virða þær að vettugi, breyta reglunum og yfirgefa Evrusvæðið, hið snarasta.

Einnig boðar frambjóðandi Lýðveldisflokksins, François Fillon, nokkuð róttækar breytingar í anda Margret Thatcher og vill skera niður ríkisútgjöld um allt að 110 milljörðum evra (eða því sem jafngildir 4,2% af VLF Frakklands) til ársins 2022.