Þó að ég sé búinn að vera í þessu í 23 ár, og reyni að telja sjálfum mér trú um það hvert einasta haust að ég sé orðinn það gamalreyndur, þó ungur sé, að ég eigi ekki að fara á taugum, þá hef ég alltaf verið við það að fara á taugum á þessum árstíma. Þessi jól eru því miður engin undantekning,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, þegar við hittum hann í höfuðstöðvum Forlagsins við Bræðraborgarstíg.

„Þó að þetta sé ekkert ósvipað á hverju ári þá tekur þetta svakalega á. Við gefum auðvitað út bækur allan ársins hring en ég held að þetta sé orðið genetískt hjá mér þar sem ég er þriðja kynslóðin í þessum bransa.“

Forlagið er stærsti bókaútgefandi á Íslandi, en þar starfa um fjörutíu manns – og einn köttur. Áður valt framtíð bókaútgáfunnar að langmestu leyti á bóksölu fyrir jólin. Sú er ekki raunin lengur. „Árið á eftir réðst af því hvernig gekk um jólin. Við áttum allt undir á örfáum vikum fyrir jól. Þegar við settum JPV á laggirnar 2001 var það eitt helsta markmið okkar að breyta þessu og gefa út bækur sem geta selst á öðrum árstíma og eiga ekki allt undir jólabókalottóinu.“

Og hefur það tekist?

„Já, það hefur gengið ákaflega vel. Nú er svo komið að jólavertíðin er ekki nema ríflega þriðjungur af ársveltu meðan hún er jafnvel meiri en tveir þriðju af veltunni hjá mörgum öðrum forlögum. Það kemur að því að maður tapar í því lottói. Íslenski bókamarkaðurinn er afskaplega miðaður að jólum og bókinni sem jólagjöf. Það var vítahringur sem við þurftum að brjótast út úr – að þora að gefa út bækur ætlaðar almenningi til afþreyingar, en ekki til gjafa, á öðrum árstíma. Það gjörbreytti stöðunni fyrir okkur.“

Þröng staða á bókamarkaði

Hvernig er bókamarkaðurinn að þróast?

„Bókaútgáfa hefur átt við ramman reip að draga á undanförnum árum. Það var þó sérstakt í tilviki bókabransans að strax eftir hrun jókst bóksala. Ég kann ekki einhlíta skýringu á því en það var eins og fólk horfði meira inn á við en í að­ draganda hrunsins. Árin 2008 og 2009 voru því ágætis ár í bóksölu. Síðan byrjaði að halla hressilega undan fæti og hefur gert alveg síðan þá. Sem bransi höfum við því ekki fundið botninn, á meðan flestar ef ekki allar greinar hafa tekið vel við sér frá hruni. En velta bókaútgáfunnar er enn á niðurleið og sú er enn raunin sé horft til veltutalna það sem af er ári– sem er grafalvarlegt og höfum við ítrekað bent stjórnvöldum á vonda stöðu greinarinnar.

Stjórnvöld hafa í raun aukið álögur á bókaútgáfu á undanförnum árum fremur en að leita leiða við að rétta stöðuna. En það hefur ekki staðið á stjórnvöldum að koma öðrum listgreinum til hjálpar á liðnum árum, til dæmis með endurgreiðslukerfi í bæði kvikmyndagerð og tónlist. Bókaútgáfa og aðbúnaður að henni á sama tíma hefur algerlega setið á hakanum. Nú er staðan sú að við höfum talað um neyðarástand. Velta bókaútgáfunnar hefur dregist saman um næstum þriðjung frá hruni. Þetta er sérlega við­ kvæmur bransi og við erum algjörlega á þolmörkum.“

Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2018 er ekki gert ráð fyrir lækkun eða breytingu á virðisaukaskatti á bækur. Ertu vongóður um að þessu verði breytt?

„Ég er bjartsýnn á að eigi síðar en á næsta ári munum við sjá afnám virðisaukaskatts af bókum. Það er ekki eingöngu óskhyggja því þar vísa ég fyrst og fremst til annars vegar stjórnarsáttmálans, þar sem kveðið er skýrt á um að það skuli byrjað á afnámi virðisaukaskatts af bókum og hins vegar nýlegra orða menntamálaráðherra og fjölda þingmanna um nauð­ syn þess að gera þessa breytingu strax og eigi síðar en á næsta ári. Ég er auðvitað efins um að þetta fari inn í fjárlögin núna eins og staðan er, því miður. En ég treysti á að þetta gerist snemma á næsta ári, rétt eins og ráðherra lét hafa eftir sér í síðustu viku. Lái mér hver sem vill, en ég ætla að reyna að treysta orðum ráðherra og ríkisstjórnarinnar.“

Hvers vegna er bókaútgáfa í þessari erfiðu stöðu?

„Ástæður minni bóksölu eru án efa margar. Þetta er kannski fyrst og fremst breyting á neyslu og afþreyingu almennings. Erlendar efnisveitur eiga greiðan aðgang hingað heim og útbreidd snjallsíma- og spjaldtölvueign hefur mikil áhrif á hvernig við verjum tíma okkar. Samfélagsmiðlar eru sömuleiðis annað sem hefur mikil áhrif á það hvernig tíma okkar er varið. Tími sem áður fór í lestur fyrir einhverjum árum fer í annað. Auð­ veldara aðgengi að bókum á erlendum tungumálum hefur líka eflaust haft áhrif. Nú er til dæmis ekkert mál að panta bók frá útlöndum og fá hana samstundis á rafbók eða þá örfáum dögum seinna sé hún er prentuð. Þegar ég ólst upp var algengt að bíða þyrfti í allt að sex vikur eftir bókum pöntuðum erlendis frá. Vefverslun með bækur hefur aukist mikið og sömu sögu er að segja af notkun efnisveita eins og Audible, sem allt gerir okkur erfiðar fyrir. Bókaútgáfa um allan heim hefur átt erfitt í þessari samkeppni og Ísland engin undantekning þar á.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .