*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Innlent 14. febrúar 2018 12:04

Greiddu 9,5 milljarða fyrir 5% í Arion

24 sjóðir í stýringu hjá Stefni, Íslandssjóðum, Landsbréfum og Júpiter keyptu 2,54% hlut í Arion banka.

Ingvar Haraldsson
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Haraldur Guðjónsson

Innlendir verðbréfasjóðir, Goldman Sachs og Attestor Capital greiddu 9,53 milljarða króna fyrir 5,34% hlut í Arion banka samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Miðað við það er Arion banki í heild metinn á 178,5 milljarða króna.

Innlendu kaupendurnir voru 24 sjóðir í stýringu hjá Stefni, Íslandssjóðum, Landsbréfum og Júpiter sem keyptu samtals 2,54% hlut í Arion banka. Þá keyptu erlendu félögin samtals 2,8% hlut. Stefnir er í eigu Arion banka, Íslandssjóðir í eigu Íslandsbanka, Landsbréf er í eigu Landsbankans og Júpiter er í eigu Kviku, sem var ráðgjafi Kaupþings við söluna.

Stærstur hluti kaupverðsins mun renna til íslenska ríkisins sem hluti af stöðugleikaframlögum Kaupþings.

Kaupverðið var 0,805 krónur fyrir hverja krónu af eigin fé miðað við níu mánaða uppgjör Arion banka. Lögð var áhersla á að ganga frá kaupunum áður en Arion banki birtir uppgjör síðar í dag þar sem forkaupsréttur ríkisins hefði virkjast væru hlutirnir seldir á undir 0,8 krónur fyrir hverja krónu á eigin fé.

Ekki kemur fram hvernig innbirðis skiptingin milli innlendu og erlendu sjóðanna er í kaupunum. Attestor Capital átti fyrir 10,44% hlut og Goldman Sachs 2,57% hlut. Eftir viðskiptin mun Kaupþing áfram eiga meirihlutann, eða 52% í Arion banka, í gegnum félagið Kaupskil. Ríkissjóður mun áfram eiga 13% hlut.

Fleiri fréttir um málefni Arion banka:

Stikkorð: Arion banki Kaupþing