*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 1. júlí 2012 15:58

Hár kostnaður bankanna miðað við eignir þeirra

Ná ekki fram sömu stærðarhagkvæmni og erlendir bankar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Það eru margar leiðir til að meta hversu skilvirkir bankar eru í rekstri og er oft horft til þess rekstarkostnaðar sem til fellur vegna starfsemi þeirra. Miklu skiptir við hvað þessi kostnaður er þegar íslensku bankarnir eru bornir saman við erlenda banka. Sé kostnaðurinn settur fram sem hlutfall af eignum er kostnaðarhlutfall íslensku bankanna mjög hátt miðað við aðra banka á meðan það er lágt ef kostnaðurinn er settur fram sem hlutfall af heildartekjum.

Kostnaður bankanna

Í skýrslu Bankasýslunnar er kostnaður settur fram sem hlutfall af meðalstöðu eigna. Þar eru bankarnir þrír allir með hærra kostnaðarhlutfall en aðrir bankar á borð við KBC, Jyske Bank og Nordea sem miðað er við. Laun og launatengd gjöld eru stór þáttur í rekstrarkostnaði banka en í skýrslu Bankasýslunnar kemur fram að einungis KBC bankinn af erlendu bönkunum sem miðað er við sé með lægri laun og launatengd gjöld á hvern starfsmann en íslensku bankarnir.

Þetta gefur svipaða mynd og hlutfall launa og launatengdra gjalda af heildartekjum sem miðað er við í greiningu Arion banka. Þar er hlutfall Arion banka 27%, Íslandsbanka 25% og 22% hjá Landsbankanum. Einungis finnski Pohjola bankinn og DnbNor í Noregi eru með lægra hlutfall en þeir íslensku.

Hæsta hlutfallið í greiningunni er hjá SparNord sem er með 41% og Deutsche Bank með 40%. „Það sem þessar tvær myndir af kostnaði og vaxtamun draga saman er hagkvæmni stærðarinnar,“ segir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Arion banka. Hann segir að þegar kostnaður er borinn saman við heildareignir þá sýni samanburðurinn að heildareignir íslensku bankanna eru frekar litlar. Íslensku bankarnir geti ekki nýtt sér hagkvæmni stærðarinnar að sama skapi og stærri erlendir bankar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.