Kaffitár hefur boðið Íslendingum upp á svokallað „specialty“ kaffi frá árinu 1990 þegar Aðalheiður Héðinsdóttir stofnaði kaffibrennslu í Keflavík. Aðalheiður lítur björtum augum til framtíðar en segir atvinnuumhverfið hér á landi sérstaklega erfitt um þessar mundir. Þá gagnrýnir hún harðlega neikvætt viðhorf Íslendinga til ferðamanna.

Aðalheiður segir ástandið á íslenskum atvinnumarkaði erfitt fyrir fyrirtæki eins og Kaffitár en við það bætist skortur á húsnæði sem gerir það að verkum að erfitt er að bjóða erlendu starfsfólki til landsins.

Þrátt fyrir að samkeppnin hafi aukist mikið undanfarin ár þá lítur Aðalheiður björtum augum til framtíðar þar sem tækifærin liggja víða. Hún segir aukningu í ferðaþjónustu landsins hafa góð áhrif á landið í heild sinni og harmar neikvæðni Íslendinga í garð ferðamanna.

Reiðist þegar Íslendingar tala niður ferðamannastrauminn

Aðalheiður segir að Kaffitár hafi notið góðs af ferðamannastraumnum og að það sama megi segja um alla Íslendinga. „Ég verð bara pínulítið æst og reið þegar Íslendingar eru að tala niður ferðamannastrauminn og einblína alltaf á þetta neikvæða.“

Nú virðist neikvætt viðhorf Íslendinga gagnvart ferðamönnum að vera að aukast, það kemur þá væntanlega illa við þig?

„Jú, mér þykir það svakalega leiðinleg þróun. Það er gjarnan sagt að glöggt sé gests augað og ferðamenn eru gjarnan að benda okkur á hluti sem mættu betur fara.“

Íhuga að byggja sínar eigin íbúðir

Hvernig hafið þið fundið fyrir uppsveiflunni í þjóðfélaginu og atvinnuástandinu?

„Fyrst og fremst að þá er bara hrikalega erfitt að fá starfsfólk. Við höfum nóg af helgarfólki og hlutastarfsmönnum enda mikið af fólki sem er t.d. að vinna hjá okkur samhliða námi. Hingað til höfum við átt létt með að fá fólk enda mörgum sem finnst spennandi að vinna á kaffihúsi og við höfum boðið upp á öruggt og gott starfsumhverfi. En að fá fólk í fullt starf um þessar mundir er bara gríðarlega erfitt og eins og er þá vantar okkur fólk í níu stöður og við erum í raun að berjast um sama fólk og leikskólarnir og skólaliðarnir.

Hér á veitingastaðnum og á kaffihúsinu okkar í Perlunni þá held ég að 50% af þjónunum sé fólk sem tali ekki íslensku og við erum alveg opin fyrir slíkum ráðningum, við þurfum bara að kenna þeim orðaforðann sem skiptir máli. En svo bætist húsnæðiseklan við vandann. Við erum vel tengd inn í kaffigeirann erlendis og við höfum staðið okkur vel á Íslandsmótum og heimsmeistaramótum kaffibarþjóna og Kaffitár er rótgróið og þekkt fyrirtæki svo kaffiheimurinn veit alveg hver við erum. Við gætum því auðveldlega sótt erlent vinnuafl. En hvar á það að búa?

Þegar þetta fólk er búið að borga leiguna af einhverri íbúð á svæðinu þá er einfaldlega ekkert eftir. Við erum því alvarlega farin að velta því fyrir okkur að fara út í byggingarbransann eins og Wow air og IKEA og Bláa lónið hafa gert svo við getum boðið starfsfólki okkar upp á við¬ ráðanlegt húsnæði. Þetta er alveg orðið knýjandi því ég veit ekki hvað við gerum í haust þegar margt af okkar starfsfólki snýr aftur í nám. Við erum með hreyfanlegt vinnuafl, mikið af ungu fólki sem stoppar í eitt ár t.d. eftir menntaskóla, þannig að þetta er erfitt ástand.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .