*

þriðjudagur, 24. október 2017
Innlent 19. júní 2017 15:27

Hlutfallið aldrei jafnara

Hlutfall kynjanna í nýjum nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytanna hefur aldrei verið jafnara.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt skýrslu sem Jafnréttisstofa gaf út í dag hefur hlutur kynjanna í nýskipuðum nefndum ráðuneytanna aldrei verið jafnari. Árið 2016 starfaði 3.937 manns í nefndum á vegum ráðuneytanna og skiptist hlutfallið þannig að 54% þeirra voru karlar en 46% konur. Á sama tímabili voru 1058 manns skipaðir í nýjar nefndir og var hlutfallið þar 51% karlar og 49% konur. Hefur þetta hlutfall aldrei verið jafnara. 

Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa eftirlit með framkvæmd hans. Samkvæmt 15. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 á hlutfall kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum að vera sem jafnast og ekki minna en 40% þegar fulltrúar eru fleiri en þrír. Tilnefningaraðili á að tilnefna karl og konu, en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. 

Árið 2016 starfaði 671 nefnd á vegum ráðuneytanna og voru 68% þeirra skipaðar í samræmi við 15. grein jafnréttislaga. Á starfsárinu 2016 var 191 ný nefnd skipuð og voru 75% þeirra skipaðar í samræmi við greinina. Er þetta betri árangur 2015 þegar þegar eingöngu 67% nefnda voru skipaðar í samræmi við greinina. 

Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu segir í samtali við Viðskiptablaðið að frá því að lögin hafi verið sett árið 2008 hafi staðan verið að batna jafnt og þétt. Hún segir skýringuna á þeim mun sem er til staðar megi að einhverju leyti rekja til þess að annars vegar vera nefndir og stjórnir þar sem kveðið er á um að embættismönnum beri skylda til þess að sitja í þeim nefndum. Hins vegar segir hún ástæðuna vera stjórnir og nefndir sem taki langan tíma að endurnýja og því halli á annað hvort kynið þegar þær aðstæður eru til staðar. Kristín segir að lokum að hún sé ánægð með að almennt séu þessar reglur virtar af ráðuneytunum.