*

laugardagur, 22. september 2018
Innlent 15. apríl 2018 13:09

Í dauðafæri með True Grit

Nýjasta sköpunarverk fyrirtækisins Lauf, True Grit, fékk hæstu einkunn sem malarhjól hefur fengið á BikeRadar.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Hjólið hefur fengið góða dóma en núna gefur stærsti mið­illinn í bransanum okkur fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum, bestu einkunn sem malarhjól hefur fengið,“ segir Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Lauf Forks um nýjasta sköpunarverk fyrirtækisins, hjólið True Grit. Lauf er einna þekktast fyrir byltingarkenndan hjólagaffal með blaðfjöðrun.

Nýja hjólið er malarhjól (e. gravel bike), en malarhjól geta að stórum hluta leyst götuhjól og léttari fjallahjól af hólmi.  Í umfjöllun BikeRadar, sem Benedikt vísar til, var hjólið látið í hendurnar á vönum götuhjólara annars vegar og fjallahjólara hins vegar. Götuhjólarinn vildi eftir prófunina skipta fjallahjólinu sínu út fyrir True Grit á meðan fjallahjólarinn vildi True Grit í staðinn fyrir götuhjólið sitt. Um áramótin var hjólið auk þess efst á topplistum hjá öllum helstu hjólamiðlunum. Í skýringum við stjörnugjöf BikeRadar kemur fram að fimm stjörnu hjól séu einstök og afgerandi flaggskip á sínu sviði á með­ an fjögurra stjörnu hjól eru mjög góð og meðal þeirra bestu sem eru í boði.

„Þegar við tökum þátt í hjólakeppnum erlendis eða förum í verslanir í Bandaríkjunum þá þekkja allir orðið Lauf. Það þarf aldrei að kynna vörumerkið,“ segir Benedikt. „Það er skemmtilegt að vera ekki eldra eða stærra fyrirtæki en þetta og að enginn efist um gæði vörunnar,“ segir Erla Skúladóttir, systir Benedikts og stjórnarformaður Laufs. Hún hefur haldið utan um fjármögnun fyrirtækisins og vernd hugverkaréttar, en Erla er lögmaður. „Burtséð frá tæknilegu forskoti ætlum við á næstu árum að vera fyrsta merkið sem skilgreinir sig sem malarhjólamerki,“ segir Benedikt. „Búðirnar í Bandaríkjunum eru margar með eitthvað uppistöðumerki, Trek eða Giant eða Specialized. Svo fylla þau upp í með áhugaverðum hjólum. Við ætlum að vera þar, það á að vera svolítið „statement“ að vera á hjóli frá okkur,“ segir Benedikt.

Innan við tólf mánaða þróunarferli

Hjólin eru framleidd í Kína af einum stærsta koltrefjahjólaframleiðanda heims. Forsvarsmenn fyrirtækisins kínverska féllu að sögn Benedikts fyrir hugviti Laufs. „Þeir sáu líka möguleika á að geta gert eitthvað nýtt og skemmtilegt með okkur,“ segir Benedikt. Hugmyndin að því að framleiða hjólið kviknaði í desember 2016. Innan við ári síðar var það komið á markað.

„Þróunarferlið gekk mjög hratt fyrir sig því þeir eru bestir í heimi í þessu,“ segir Erla. Stellið á True Grit er steypt meira og minna heilu lagi. „Til þess þarf latexkjarna í laginu eins og hjólið, kjarna sem síðan er blásinn upp til að þrýsta koltrefjunum út í mótið. Það er síðan byltingarkennt að lagnaleiðir eru steyptar inn í stellið,“ segir Benedikt. Lauf er að stórum hluta í eigu „F-anna þriggja,“ segir Erla og hlær en á síðustu misserum hafa fagfjárfestar komið inn í fyrirtækið. Þau segja fyrirtækið geta orðið verulega stöndugt á tekjum af sölu hjólanna, en stefnan er sett á að selja yfir 5.000 hjól á ári árið 2020.

„Okkur dugar að selja 2.500 hjól á ári til að standa traustum fótum en við erum í dauðafæri núna,“ segir Erla. „Þess vegna þurfum við á fjárfestum og fjármagni að halda til að geta nýtt þetta færi.“ Á með­ an keppinautar sturta peningum í þróun malarhjóla komi því ekki annað til greina en að setja meira fjármagn í fyrirtækið. „Það yrði mjög dýrt að ná ekki þeim status að verða ekki aðalmalarhjólamerkið,“ segir Benedikt. „Með þessu hjóli erum við með frá­ bæran grunn til þess.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.