Íbúðalánasjóður hyggst ná fram aukinni hagræðingu með því að fækka framkvæmdastjórum úr sex í fjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum.

„Eftir skipulagsbreytingarnar skiptist starfsemi Íbúðalánasjóðs í fjögur meginsvið: viðskiptasvið, útlánasvið, fjármálasvið og rekstrarsvið . Verkefni eignasviðs og upplýsingatæknisviðs verða felld undir nýtt svið sem nefnist rekstrarsvið og verkefni lögfræðisviðs færast beint undir forstjóra," segir í tilkynningu frá sjóðnum.

„Skipulagsbreytingarnar eru liður í stefnumótunarvinnu stjórnar í framhaldi af skilum verkefnastjórnar velferðaráðherra á skýrslu um framtíðarskipan húsnæðismála síðasta vor. Stefnumótunin felur í sér áherslu á einfaldari rekstur, aukna áherslu á kjarnastarfsemi sjóðsins, markvissar aðgerðir til lausnar á fjármögnun skuldbindinga sjóðsins og jafnvægi í lánastarfsemi og fjármögnum sjóðsins," segir jafnframt.

„Stjórn sjóðsins lítur svo á að með áðurnefndum skipulagsbreytingum verði Íbúðalánasjóður betur í stakk búinn til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu á húsnæðislánamarkaði: að veita þjónustu í almannaþágu, að stuðla að húsnæðisöryggi með sanngjörnum lánakjörum óháð stöðu eða búsetu og stuðla þannig að stöðugleika á íslenskum húsnæðismarkaði. Samhliða skipulagsbreytingunum verður ráðgjöf, fræðsla og þjónusta við viðskiptavini Íbúðalánasjóðs efld," segir einnig.

Leggja til að Íbúðalánasjóður verði lagður niður

Í árshlutareikningi sjóðsins fyrir fyrri helming 2015 kemur fram að tap hafi verið 808 milljónir króna á árshlutanum, borið saman við 1.308 milljónir á sama tímabili 2014. Þar kemur jafnframt fram að eiginfjárhlutfall sjóðsins væri nú 4,8%, en hefði verið 4,5% í byrjun þessa árs.

„Virðisrýrnun útlána nam 19.590 milljónum króna í lok júní 2015 og lækkaði um 1.538 milljónir króna frá áramótum. Lækkun virðisrýrnunar tengist umtalsverðri minnkun vanskila heimila og sterkari tryggingastöðu lánasafnsins vegna hækkana á fasteignamarkaði. Í lok tímabilsins voru 95,7% heimila sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð með lán sín í skilum," segir í árshlutauppgjörinu.

Ljóst er að staða Íbúðalánasjóðs er ekki góð og lagði OECD til fyrir skemmstu að Íbúðalánasjóður yrði leystur upp til að draga úr áhættu ríkissjóðs af honum.