*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Innlent 17. janúar 2018 16:46

Icelandair stekkur upp um 4,62%

Græn ljós blikkuðu í Kauphöllinni í dag en VÍS og Origo, sem enn er viðskipti með undir nafninu Nýherji, voru þau einu sem lækkuðu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala Nasdaq Iceland hækkaði um 2,22% í 3,7 milljarða viðskiptum dagsins og fór hún upp í 1.741,87 stig, en hún hefur ekki staðið hærra síðan 24. ágúst á síðasta ári, þegar hún var í 1.744,3 stigum.

Aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði um 0,02% í 1.365,29 stig í 3,1 milljarða viðskiptum. Viðskipti á First North markaðnum námu 16,5 milljónum króna, en þar hækkuðu bréf Hampiðjunnar um 2,67 prósent í litlum viðskiptum meðan bréf ISI hækkuðu um 0,69% í 14,5 milljóna króna viðskiptum.

Grænt var um að litast í kauphöllinni í dag, einungis tvö félög lækkuðu í verði. Lækkuðu bréf Nýherja mest, en félagið hefur breytt um nafn og heitir núna Origo, þó enn um sinn sé notast við Nýherjanafnið í kauphöllinni. Nam lækkunin 2,22% niður í 26,40 stig í þó litlum viðskiptum eða fyrir 18 milljónir króna.

Næst mest lækkuðu bréf VÍS einnig í litlum viðskiptum, en bréfin lækkuðu um 0,25% niður í 12,07 krónur hvert bréf.

Mest hækkun var á gengi bréfa Icelandair Group, sem hækkuðu um 4,62% í 480 milljón króna viðskiptum og fór gengi bréfanna upp í 15,85 krónur.

Næst mest hækkuðu bréf Haga, eða um 3,75% í 364 milljón króna viðskiptum og færst nú hvert bréf félagsins á 38,75 krónur.

Mest viðskipti voru svo með bréf Marel, eða fyrir 774 milljónir króna en bréf félagsins hækkuðu um 1,60% upp í 348,50 krónur.