*

laugardagur, 26. maí 2018
Innlent 21. apríl 2017 11:04

Icelandic Group setur Seachill í söluferli

Stjórn Icelandic Group hefur ákveðið að setja dótturfélag sitt í Bretlandi, Seachill, í söluferli.

Ritstjórn
Seachill framleiðir meðal annars Saucy Fish.
Aðsend mynd

Stjórn Icelandic Group hefur ákveðið að setja Seachill í söluferli. Seachill er félag sem sér um starfsemi Icelandic Seafood í Bretlandi. Félagið var stofnað árið 1998 og er nú einn af stærstu aðilunum í Bretlandi á smásölumarkaði kældra fiskiafurða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandic Group.

Tekjur félagsins Seachill námu 266,3 milljónum punda í fyrra og nam EBITDA félagsins 10,4 milljónum punda. Hjá Seachill starfa 750 manns. Íslandsbanki og Oghma Partners sjá um söluferlið.

„Seachill hefur verið í vexti frá stofnun þess árið 1998 og er nú einn stærsti framleiðandi kældra fiskafurða í Bretlandi. Félagið er með aðsetur í Grimsby þar sem það starfrækir verksmiðju sem hefur verið endurnýjuð að miklu leyti síðustu árin. Sjálfbærni er mikilvæg fyrir Seachill og vinnur félagið eingöngu með MSC-vottuðum birgjum en til að öðlast slíka vottun þarf að sýna fram á vistvænar veiðar, styrkleika fiskistofna, ábyrga og sjálfbæra fiskveiðistjórnun,“ segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.