Hreiðar Hermannsson, eigandi Stracta hótelsins sem staðsett er á Hellu, segir aðsóknina á hótelið hafa verið svipaða og í fyrra og telur mikil tækifæri felast í fyrirhuguðu beinu flugi WOW air milli Íslands og Indlands.

„Aðsóknin hefur verið svipuð og í fyrra en hún minnkaði þó meira en við höfðum gert ráð fyrir í apríl og maí á þessu ári. Hinir mánuðirnir hafa komið svipað út eða jafnvel enn betur en þeir gerðu í fyrra. Apríl og maí eru því einu mánuðirnir sem hafa valdið smá vonbrigðum. Herbergjanýtingin hefur verið fín, en núna í júlí var hún 87,5%, sem er í fínu lagi. Nýtingin er eitt en svo er annað sem skiptir ekki síður máli, en það er hvað við fáum miklar tekjur út úr hverjum gesti. Við erum að fá meiri tekjur út úr hverjum gesti en við reiknuðum með. Gestir hótelsins hafa margir verið frá Bandaríkjunum og Indlandi, en ferðamenn frá þessum löndum skila yfirleitt góðum tekjum. Því er ánægjulegt að við séum að laða til okkar ferðamenn frá þessum löndum. Við lítum á það sem stórt tækifæri fyrir okkur að WOW air sé að hefja beint flug til Indlands í lok árs, þar sem straumurinn af indverskum ferðamönnum til landsins mun væntanlega aukast við það. Ferðamenn frá Indlandi hafa verið ánægðir með okkar aðstöðu og þjónustu og við höfum sömuleiðis verið ánægðir með þá" segir Hreiðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .