*

miðvikudagur, 25. apríl 2018
Innlent 11. mars 2017 10:10

Ísland í hópi dýrustu landa Evrópu

Áfengi á Íslandi er 126% dýrara hér en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins.

Trausti Hafliðason
Haraldur Guðjónsson

Ísland er í hópi dýrustu landa Evrópu og er þá nokkurn veginn sama við hvað er miðað. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka um ferðaþjónustuna.

Í skýrslunni er rýnt í tölur Eurostat og OECD frá 2015 um verðlag. Í þeim flokkum sem skoðaðir eru var verð hérlendis á bilinu 30 til 126% dýrara en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins. Mesti munurinn var í verði á áfengum drykkjum, eða 126%. Aðeins í Noregi eru áfengir drykkir dýrari en á Íslandi.

Það vekur óneitanlega athygli að Ísland er dýrasta landið þegar kemur að farþegaflutningum. Telur Greining Íslandsbanka þetta stafa af því að hér á landi séu færri möguleikar í samgöngum en víða erlendis. Hér séu til dæmis engar lestir eða sporvagnar. Þá vekur einnig athygli að ferðamenn virðast ekki nýta sér innanlandsflug að neinu marki. Sú staðreynd að farþegum í innanlandsflugi hefur fækkað um 6% frá árinu 2010 á sama tíma og ferðamönnum hefur fjölgað um 175% endurspeglar þessa staðreynd. Vöxtur ferðaþjónustunnar virðist því ekki hafa nein áhrif á innanlandsflug.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.