Íslandspóstur tapaði 118 milljónum króna árið 2015 en það er 174% meira tap en árið 2014. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Íslandspósts .

Rekstratekjur samstæðu Íslandspósts námu 7,6 milljörðum króna og jukust um 4,4% frá árinu áður. Í frétt á vefsíðu Íslandspósts þar sem greint er frá uppgjörinu kemur fram að aukning tekna sé að mestu vegna aukningar pakkasendinga innanlands og aukningar á sendingum til landsins.

Í frétttinni er slæm afkoma síðasta árs rakin til fækkunar bréfa í einkarétti en magn þeirra hefur dregist saman um 33% á síðustu fimm árum. Á sama tíma hefur dreifinet póstþjónustunnar stækkað um rúm 3,3% sem hefur leitt til aukins kostnaðar. „Á sama tíma hefur lögbundin krafa um þjónustu haldist óbreytt en stjórnendur fyrirtækisins hafa ítrekað vakið athygli stjórnvalda á  óásættanlegri afkomu og fyrirsjáanlegum stigvaxandi vanda póstþjónustunnar ef ekki verður gripið til viðeigandi ráðstafana,“ er haft eftir Ingimundi Sigurpálssyni, forstjóra Íslandspósts í fréttinni.

„Það er því fagnaðarefni að innanríkisráðherra hafi nú kynnt til umsagnar drög að frumvarpi til nýrra laga um póstþjónustu. Mikilvægt er að við setningu nýrra laga liggi fyrir kostnaðarmat á fjárhagslegri byrði vegna alþjónustu. Þannig hefur löggjafinn möguleika á því að meta saman annars vegar umfang þeirrar alþjónustu, sem hann ákveður, og hins vegar kostnað vegna hennar, en gera verður ráð fyrir því að fjárveiting fyrir þeirri þjónustu verði tryggð úr ríkissjóði. Svigrúm til þess að greiða niður þá þjónustu, eins og gert hefur verið með því að ganga á eigið fé Íslandspósts og þar með eign ríkisins, er afar takmarkað en þess utan er slík niðurgreiðsla bæði ógagnsæ og ein versta birtingarmynd á fjármögnun opinberrar þjónustu sem hugsast getur,“ segir Ingimundur.