Tillaga Katrínar Atladóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að lækka fasteignaskatta í Reykjavík úr 1,65% í 1,60% var felld með 12 atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar á þriðjudagskvöld.

Síðastnefndi flokkurinn, hafði samhljóða tillögu í stefnuskrá sinni fyrir kosningar, og segir Pawel Bartoszek borgarfulltrúi flokksins að þá hafi verið reiknað með 313 milljónum króna minni tekjum árlega.

„Á því verðlagi værum við að missa tekjur upp á um milljarð yfir kjörtímabilið en við í Viðreisn töldum að þeim peningum væri betur ráðstafað á þessum tímapunkti í hagsveiflunni til að lækka skuldir borgarinnar heldur en að lækka fasteignaskatta fyrirtækja,“ segir Pawel sem vísar í umtalsverðan aukinn kostnað við kjarasamninga borgarinnar á næstu árum miðað við umræðuna.

„Það kom aldrei til greina hjá mér að kjósa með tillögunni, enda eru fjármál hryggjarstykki hvers meirihlutasamstarfs. Ef meirihluti gengur ekki í takt í þeim efnum er hann oftast búinn að vera. Í meirihlutasáttmálanum er kveðið á um að skattarnir muni lækka niður í 1,60% fyrir lok kjörtímabilsins.“

Tekjurnar samt aukist um 1,6 milljarða króna

Fasteignaskattar sveitarfélaga eru lagðir á í þremur flokkum. A fyrir íbúðarhúsnæði, sem bera að hámarki 0,5% skatt en Reykjavíkurborg lækkaði skattinn fyrir þennan flokk á síðasta ári úr 0,2% í 0,18%. Tekjur af íbúðarhúsnæði hækkuðu samt sem áður um tæplega 250 milljónir í ár en hefðu hækkað um 450 milljónir til viðbótar ef ekki hefði komið til lægri skattprósenta.

Flokkur B nær til opinbers húsnæðis ýmiss konar, sem ber 1,32% skatt að hámarki sem Reykjavíkurborg nýtir til fulls en C flokkur nær til alls annars húsnæðis. Sama hámarksskattprósenta er af flokki B og C en sveitarfélög mega hækka hlutfallið á flokka A og C um fjórðung til viðbótar eða upp í 0,625% og 1,65%.

Í árbók sveitarfélaga sem nú er í prentun er gert ráð fyrir að tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignasköttum af atvinnuhúsnæði aukist því um 1,2 milljarða króna í ár og nemi tæplega 11,9 milljörðum króna.

Vegna væntrar 16,6% hækkunar fasteignamats fyrir næsta ár er búist við því að tekjur af atvinnuhúsnæði aukist í rúma 13,8 milljarða. Það þýðir að um tveir milljarðar bætast við fasteignaskatta fyrirtækja í borginni.

Ef tillaga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hefði verið samþykkt myndu tekjurnar verða 420 milljónum króna lægri en álögurnar samt sem áður hækkað um tæpa 1,6 milljarða króna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .