Hrafn Steinarsson hjá greiningardeild Arion banka segir að þeir hafi búist við óbreyttum vöxtum, sérstaklega vegna þess að peningastefnunefndin hafi í undanförnum yfirlýsingum talað um vaxandi verðbólguþrýsting og að auka þurfi aðhald.

Verðbólguhorfur batna verulega

„Ef peningastefnunefndin ætlar að veita framvirka leiðsögn þá væru minni líkur en meiri á að þeir myndu lækka vexti. Aftur á móti höfum við verið að benda á, í fyrsta lagi að verðbólguvæntingar hafa farið hratt lækkandi á skuldabréfamarkaði og að verðbólguhorfur hafa batnað verulega, hvort sem litið er til verðlags á bílum, farsímaþjónustu, húsgögnum, eða annarra vara, þá sérstaklega innfluttra vara. Einnig má sjá gjaldskrárlækkanir og tollaafnám um áramótin, og eru því um töluvert lægri verðbólguhorfur að ræða nú en áður,“ segir Hrafn Steinarsson hjá greiningardeildinni í samtali við Viðskiptablaðið.

Segir hann að breytinguna frá fyrri stefnu hljóta að felast í því að verðbólguvæntingar peningastefnunefndarinnar hafi lækkað.

„Það eru í raun batnandi verðbólguhorfur. Sem veldur því að seðlabankinn ákveður að draga úr aðhaldi peningastefnunnar, sem var orðið of mikið, þegar við sjáum 3,5% raunvexti, ef miðað er við 5 ára verðbólguvæntingar. Við erum mjög ánægð með að Seðlabankinn dragi úr aðhaldinu og lækki raunvextina niður í 3% raunvexti.“

Hætta á verðhjöðnun

Spurður hvort við þurfum að hafa áhyggjur af verðhjöðnun svarar hann:

„Horfur hvað varðar alþjóðaverðbólgu, benda frekar í átt til verðhjöðnunar, og þetta hefur áhrif á verðlag innanlands. En það sem vegur þyngra, er viðskiptaafgangur, sparnaður innanlands og sú staðreynd að jafnvægisraungengi getur verið hærra en áður var talið. Þess vegna sjáum við styrkingu krónunnar. Það dregur allverulega úr verðbólgu og mun gera á næstu misserum,“ segir Hrafn.

Frekari vaxtalækkanir

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að Seðlabankinn muni lækka vexti meira segir hann alveg opið fyrir það.

„Það má heldur ekki gleyma því að nafnvöxtur landsframleiðslu var um 10%, atvinnuleysi er rétt yfir 2% og kaupmáttaraukning síðastliðið ár er 12%. Eftirspurnin er því sterk, en við gætum því séð eftirspurnadrifna verðbólgu, en líkur á að sjá kostnaðardrifna verðbólgu vegna titrings á krónunni eða slíkt, þær líkur eru hverfandi.“