Vefhönnunarfyrirtækið Kosmos & Kaos og Arion banki hafa gert með sér samstarfssamning. Samningurinn felur í sér að Kosmos & Kaos mun sjá um hönnun fyrir vefi og önnur stafræn notendaviðmót Arion banka. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Kosmos & Kaos hafa sérhæft sig í hönnun og þróun á stafrænum nýjungum þar sem framúrskarandi hönnun ásamt einföldu og aðgengilegu viðmóti fyrir notendur fara saman. Arion banki stendur mjög framarlega í stafrænni þjónustu og markmiðið er að nýta okkar þekkingu og reynslu til að færa hann enn framar,“ segir Inga Birna Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos.

„Markmið okkar er að vera leiðandi í stafrænni bankaþjónustu á Íslandi þar sem áherslan er á að auðvelda viðskiptavinum okkar að sinna sínum fjármálum hvar og hvenær sem er. Útlit og framsetning stafrænu þjónustunnar er einn af lykilþáttum í að gera hana aðgengilega og skapa góða upplifun hjá okkar viðskiptavinum. Við teljum að samstarf við Kosmos og Kaos muni hjálpa okkur á þessari vegferð“ segir Rakel Óttarsdóttir, framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Arion banka.