*

laugardagur, 25. maí 2019
Innlent 25. október 2018 09:43

Kvika hagnaðist um 1,4 milljarða

Hagnaður Kviku banka eykst um 43% á milli ára fyrstu 9 mánuði ársins, og gerir bankinn ráð fyrir 1,9 milljarða hagnaði út árið.

Ritstjórn
Ármann Þorvaldsson er forstjóri Kviku
Aðsend mynd

Rekstrarniðurstaða Kviku á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 var í samræmi við áætlun. Hagnaður Kviku fyrir skatta á tímabilinu 1. janúar - 30. september 2018 samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri samstæðu bankans nam 1.444 milljónum króna fyrir skatta.

Á sama tímabili árið 2017 var hagnaður bankans fyrir skatta 1.011 milljónir króna. Er það aukning hagnaðar um 42,8% á milli ára. Áætlun ársins 2018 á afkomu fyrir skatta var hækkuð í 1.931 milljónir króna eftir fyrsta ársfjórðung.

Vaxtatekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins eru nokkuð yfir áætlun og þóknanatekjur eru á áætlun. Hins vegar eru fjárfestingatekjur og hlutdeildartekjur undir áætlun. Arðsemi eiginfjár miðað við afkomu fyrir skatt á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 var 17,3% á ársgrundvelli. 

Eigið fé bankans nam 12,6 milljörðum króna í lok september og heildareignir námu 97,3 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall bankans, að teknu tilliti til afkomu ársfjórðungsins, var 23,5% sem er umtalsvert umfram kröfu FME, en hún nemur 20,25% með eiginfjáraukum.

Sjóður, innstæður í Seðlabanka og verðbréf með ríkisábyrgð námu rúmlega 35,5  milljörðum króna. Lausafjárhlutfall var 201% í lok september, sem er verulega umfram lögbundið 100% lágmark, sem og innri markmið bankans.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki verður gjaldfærður í árslok þar sem skattstofninn miðast við fjárhæð skulda í árslok. Miðað við stöðu skulda 30. september 2018 og núverandi álagningarhlutfall þá væri álagður sérstakur bankaskattur 115 milljónir króna vegna ársins 2018.

Bankinn á yfirfæranlegt skattalegt tap eins og fram kemur í árshlutareikningi bankans fyrir fyrri helming ársins 2018 sem kemur til lækkunar á útreiknuðum tekjuskatti. Framkvæmt verður mat á yfirfæranlegu skattalegu tapi á fjórða árshelmingi en niðurstaða þess hefur áhrif á afkomu bankans eftir skatt.

Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku segir reksturinn fyrstu níu mánuði ársins vera í samræmi við áætlanir.„Arðsemi bankans er góð og fjárhagsstaða hans mjög sterk, hvort sem litið er til eiginfjár- eða lausafjárhlutfalla. Ástand á mörkuðum hefur verið fremur dauft á árinu og einkennst af lítilli veltu og verðlækkunum, en þrátt fyrir það hefur reksturinn gengið prýðilega og öll tekjusvið bankans eru að skila hagnaði,“ segir Ármann og bendir á að hagnaðurinn hafi aukist umtalsvert milli ára.

„Í júní var greint frá því að undirrituð hefði verið viljayfirlýsing um kaup Kviku á öllu hlutafé í Gamma Capital Management. Áreiðanleikakönnun er að ljúka og frekari frétta er að vænta á næstunni. Þá hefur vinna hafist við skráningu hlutabréfa bankans á aðallista Nasdaq OMX Iceland og stefnt er að skráningu  á fyrri árshelmingi 2019.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim