Fjárfestingarbankinn Kvika hefur gert samning við alþjóðlega eignarstýringarfyrirtækið Wellington Management um sölu og dreifingu á hlutabréfasjóðnum Global Quality Growth.

„Sjóðurinn fjárfestir í hlutabréfum á öllum helstu mörkuðum heims með langtíma árangur að leiðarljósi og áherslu á jafnvægi milli vaxtar, arðsemi og gæðaviðmiða,“ segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins.

Fyrirtækið á rætur til ársins 1928

Fyrirtækið Wellington Management, sem þjónustar viðskiptavini í 55 löndum, á rætur að rekja til ársins 1928 og býður upp á stýringu á skráðum verðbréfum á öllum helstu mörkuðum, í gegnum sjóði og sérgreind söfn. Er fyrirtækið með 969 milljarða dala í eignastýringu.

„Þrátt fyrir fjármagnshöft síðustu ára, höfum við hjá Kviku fjárfest í þekkingu á erlendum mörkuðum með góðum árangri. Erlendar eignir í stýringu hafa aukist verulega og stöðugt fleiri viðskiptavinir nýta sér þjónustuna. Það er því ánægjulegt að bæta Global Quality Growth sjóð Wellington við fjölbreytt vöruúrval bankans. Sjóðurinn hefur náð gríðargóðum árangri á undanförnum árum og Wellington Management er öflugur og traustur samstarfaðili,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku.