*

fimmtudagur, 13. desember 2018
Innlent 8. desember 2017 14:57

Landsbankinn spáir lækkun vaxta

Hagfræðideild bankans spáir því að stýrivextir verði lækkaðir um 0,25 prósentustig í næstu viku.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að peningastefnunefnd ákveði að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig á vaxtaákvörðunarfundi sínum 13. desember næstkomandi og að það verði síðasta vaxtalækkunin í núverandi vaxtalækkunarferli.

Í greiningu sinni segir hagfræðideildin að nær öruggt megi telja að val nefndarinnar standi milli þess að halda vöxtum óbreyttum eða lækka þá um 0,25 prósentustig. Talsverð óvissa sé um hvor ákvörðunin verður ofan á enda hægt að færa sannfærandi rök fyrir hvorutveggja.

Það sem einna helst styðji við áframhaldandi vaxtalækkanir sé að verðbólga hafi nú verið undir verðbólgumarkmiðinu frá því í febrúar 2014 eða í 46 mánuði samfleytt. Að meðaltali hefur verðbólgan verið 1,75% á tímabilinu eða 0,75 prósentustigum undir verðbólgumarkmiðinu.

Helstu rökin fyrir óbreyttum vöxtum, að mati hagfræðideildar, óvissa um ríkisfjármálin í ljósi þess að ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum og ekki liggur fyrir fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Þar sem peningastefnunefndin hefur gert fremur lítið úr þessum óvissuþætti í síðustu fundargerðum sínum teljum við að samanvegið séu örlítið meiri líkur á vaxtalækkun nú en óbreyttum vöxtum.

Á síðasta fundi nefndarinnar var ákveðið að halda vöxtum óbreyttum. Síðan þá hefur það helst gerst að krónan hefur veikst örlítið, verðbólgumæling fyrir nóvember sem sýndi 1,7% ársverðbólgu og birtir hafa verið þjóðhagsreikningar fyrir fyrstu 3 ársfjórðunga ársins sem benda til minni eftirspurnar og framleiðsluspennu en Seðlabankinn spáir fyrir árið í ár. Auk þess hefur verið mynduð ríkisstjórn í landinu.