*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 19. september 2018 17:00

Leiguverð hækkar og íbúðaverð lækkar

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,9% í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,9% í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. Frá því að mælingar hófust hefur hækkun leiguverðs umfram hækkun íbúðaverðs aldrei verið meiri milli mánaða, en íbúðaverð lækkaði um 0,1% í ágústmánuði. Þetta kemur fram í greiningu frá Íbúðalánasjóði. 

Árshækkun leiguverðs, samkvæmt þinglýstum leigusamningum, mælist nú 8,8% og hækkar frá fyrri mánuði þegar hún mældist 8,3%. Til samanburðar þá er árshækkun íbúðaverðs í ágúst 4,1% og hefur hún ekki mælst jafn lág síðan í maí 2011.

Ef litið er til sögulegrar þróunar hefur íbúðaverð þó hækkað hraðar en leiguverð, en frá því að mælingar hófust á vísitölu leiguverðs í janúar 2011 hefur leiguverð hækkað um 91% á sama tíma og íbúðaverð hefur hækkað um 99%. Þetta er þó sjötti mánuðurinn í röð þar sem árshækkun leiguverðs er ofar árshækkun íbúðaverðs.