Umhverfi auglýsinga hefur tekið miklum breytingum undanfarið og því ekki hlaupið að því fyrir fyrirtæki að skilgreina hentugustu tækifærin til markaðssetningar. Kristín Elfa Ragnarsdóttir stýrir nýrri deild hjá PIPAR/TBWA sem kallast Digital Arts Network og sérhæfir sig í alhliða stafrænni markaðssetningu.

„Engin herferð er í rauninni hönnuð til að vera stafræn heldur snýst þetta alltaf um að fá góða hugmynd og koma henni í þann farveg sem hentar best hverju sinni,“ segir Kristín Elfa. Allt frá því að stofan stofnaði fyrstu samfélagsmiðladeildina á Íslandi árið 2011 hefur hún verið í fararbroddi á sviði stafrænnar markaðssetningar.

Kristín Elfa bendir meðal annars á að nú á dögum verði auglýsendur að útbúa mismunandi efni út frá viðkomandi miðli. „Skilaboð geta ekki hljómað eins á Facebook og í dagblaðaauglýsingu. Þetta snýst allt um að úthugsa fókusinn; sérsníða skilaboðin að hverjum miðli og nýta eiginleika hans.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .