Lilja Dögg Stefánsdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra nýs sviðs hjá Icepharma, Sölu- og markaðssvið Apótek.

Lilja starfaði við sölu- og markaðsmál hjá Actavis í 10 ár bæði heima og erlendis og sem markaðsstjóri Pfizer hjá Icepharma á árunum 2013-2015. Nú síðast starfaði Lilja sem framkvæmdastjóri SagaMedica.

Sölu- og markaðssvið Apótek leggur áherslu á sérhæfða markaðssetningu og sölu til apóteka á lyfjum, fæðubótarefnum, hjúkrunarvörum, heilsuvörum og öðrum lífsstílstengdum vörum á vegum Icepharma.

Áhersla verður lögð á upplýsingagjöf, fræðslu og þjónustu fyrir starfsfólk og viðskiptavini apóteka að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Lilja Dögg er 43 ára gömul, með M.Sc. próf í lyfjafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Eiginmaður Lilju er Reynir Stefán Gylfason löggiltur endurskoðandi og eiga þau tvo syni.

Um Icepharma:

Icepharma er leiðandi fyrirtæki á íslenskum heilbrigðismarkaði og hefur það að markmiði að styðja við heilsueflingu og heilbrigðan lífsstíl. Hjá fyrirtækinu starfa um 90 manns með menntun og þekkingu á sölu og markaðssetningu, sérfræðiráðgjöf og þjónustu.