*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 1. október 2018 13:22

Lögreglan varar við falsfréttasvindli

Lögreglan hefur birt viðvörun við falsfréttasvindli þar sem líkt er eftir vef Viðskiptablaðsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Síðastliðinn miðvikudag var sagt frá því að falsfrétt hefði verið útbúin sem líkti eftir vef Viðskiptablaðsins, vb.is, og segði frá því að íslenskur auðjöfur hefði hagnast á Bitcoin-viðskiptum.

Auk þess að birta fréttina á vefnum og á facebook til aðvörunar, tilkynnti Viðskiptablaðið svindlið til lögreglu og facebook. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti svo í morgun færslu á facebook um netsvindl almennt, ásamt skjáskotum af umræddri falsfrétt.

Í færslunni er lögreglan sögð hafa fengið margar tilkynningar undanfarna daga um „svikamyllur sem auglýsa mikið á samfélagsmiðlum og miða að því að veiða inn grandlausa einstaklinga til að hafa af þeim peninga eða rafmyntir.“

Varað er við að jafnvel þótt svindlinu sé flett upp í leitarvélum, hafi svindlararnir „oft stillt upp síðum frá sjálfum sér sem halda því fram að allt sé með feldu þannig að síðurnar sem eru að vara við þessu lenda neðar hjá leitarvélinni,“.

Sagt er frá því að séu peningar lagðir inn á svindlsíðurnar, sýni þær þá fljótt hverfa í viðskiptum, sem í raun áttu sér aldrei stað. Færslurnar séu einfaldlega skáldaðar til að telja notandanum trú um að peningarnir hafi tapast með eðlilegum hætti. Í kjölfarið fái viðkomandi svo símtal frá miðlara á vegum svindlaranna, sem bjóði tækifæri til að græða allt til baka, með því auðvitað að leggja þeim til meiri peninga, sem síðan hverfa væntanlega á sama hátt.

Fyrir utan þá upphæð sem notandinn leggur sjálfviljugur inn, eru svo sögð dæmi þess að svindlararnir, sem hafa þá komist yfir kortaupplýsingar viðkomandi, noti þær til að taka út meiri peninga, sem erfitt geti verið að endurheimta. Fyrirtækin séu skráð víðsvegar um heiminn, skráningin oft afar flókin, og reynist síðan aðeins skúffuskráning, allt í því skyni að gera endurgreiðslukröfur sem erfiðastar.

Stikkorð: falsfrétt Lögerglan
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim