Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs, tilkynnti eftir lokun markaða í gær að hann hygðist hætta, en þá hafði gengi bréfa fyrirtækisins hækkað um 20% síðan á mánudag þegar það birti árshlutareikning fyrir fyrri hluta ársins.

Eins og Viðskiptablaðið sagði þá frá hagnaðist félagið um 473 milljónir á öðrum ársfjórðungi sem er 12,9% aukning á milli ára. Fyrirtækið hyggst nú sameina starfsemi sína á Íslandi og í Færeyjum að því er kom fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu þegar Valgeir tilkynnti um að hann hyggðist hætta.

„Mér fannst þetta vera góður tímapunktur fyrir nýjan forstjóra að taka við því kefli og fá inn kannski öðruvísi styrkleika og nýtt blóð,“ segir Valgeir.

„Þetta eru miklir umbreytingartímar í olíufélagageirnum sem og og mörgum öðrum. Ekki bara með tilkomu Costco, heldur líka vegna mikilla breytinga sem eiga sér stað í kauphegðun fólks, bæði í gegnum netið sem og sókn fólks í aukin þægindi er að alltaf að aukast. Þær kynslóðir sem eru að koma upp munu gera hlutina töluvert öðruvísi en við höfum gert þá.“

Skorti reynslu og hæfni

Valgeir segir að ástæðan fyrir því að samruni félagsins við Basko sem rekur 10-11 verslanirnar hafi ekki gegnið upp hafi verið vegna þess að ýmis skilyrði sem sett voru upp af beggja hálfu hafi ekki gengið upp.

„Svo báðum aðilum fannst alla vega ekki vera kominn rétti tímapunkturinn á það. Við höfum átt í góðu samstarfi við Basko um rekstur okkar verslana, sem hefur hentað okkur vel,“ segir Valgeir en spurður hvort það hafi verið rétt ákvörðun 2014 að fara aðra leið en hin olíufélögin og einblína á olíusölu sagði hann svo vera til lengri tíma.

„Ég er jafnsannfærður í dag og var þá að okkar kjarnastyrkur hefur ekki verið í því að reka þægindavöruverslanir. Til þess að reka verslanir þarf ákveðna þekkingu og hæfni sem okkur skorti á þessum tímapunkti, en þetta er töluvert annar rekstur heldur en eldsneytissalan sem við höfum einblínt á síðustu árin sem hefur lukkast vel.

Okkar módel hefur hentað okkar styrkleikum betur en hitt, og svo eru aðrir með einhverja aðra styrkleika og telja sig geta betur sjálfir heldur en í samvinnu við aðra.“

Gengi N1 lækkar áfram

Gengi bréfa N1, hins olíufélagsins í Kauphöllinni hefur haldið áfram að lækka í morgun, eða um 0,87% þegar þetta er skrifað í 116 milljón króna viðskiptum. Síðan félagið birti árshlutareikning sinn eftir lokun markaða á miðvikudag fyrir viku sem eins og Viðskiptablaðið fjallaði um sýndi að hagnaður félagsins hefði dregist saman um 30,4% á milli ára, hefur gengi bréfa þess lækkað nokkuð.

Fór verðmæti bréfanna úr 120,50 krónum eftur lokun markaða á miðvikudag niður í 115,00 krónur eftir lokun markaða í gær, sem er lækkun um 4,5%. Spurður hvort nú taki við að mæta á golfvöllinn eða jafnvel hvort hann sé að halda til annarra starfa hló Valgeir við og sagði:

„Nei, sem betur fer er maður ekki kominn á þann stað að fara að slappa af, og þetta tengist ekki neinu öðru starfi. Það er ekki búið að ráða annan forstjóra heldur er þetta allt saman gert í rólegheitunum,“ segir Valgeir sem sagðist þurfa að mæta í vinnuna áfram.

„Jájá, með mikilli gleði eins og alla aðra daga.“