Marc Benioff, meðstofnandi og framkvæmdastjóri skýjalausnafyrirtækisins Salesforce og milljarðamæringur, hyggst ásamt eiginkonu sinni, Lynne, kaupa þekkta bandaríska tímaritið Time fyrir 190 milljón dollara, tæpan 21 milljarð króna, samkvæmt frétt Financial Times .

Meredith Corporation – sem keypti Time Inc samstæðuna á 2,8 milljarða dollara, rúma 300 milljarða króna, á síðasta ári – er seljandinn, en félagið hóf nánast samstundis að skoða möguleikann á að selja sumar eignir samstæðunnar eftir kaupin, og í mars var Time ásamt Sports Illustrated, Fortune og Money sett í formlegt söluferli.

Kaup Benioff-hjónanna á tímaritinu verða ótengd Salesforce, og hjónin hyggjast ekki taka virkan þátt í daglegum rekstri eða ritstjórnarstefnu tímaritsins, samkvæmt tilkynningu frá Meredith. Benioff sagði í tísti á sunnudag að þau hjónin bæru „djúpa virðingu fyrir tímaritinu og álitu það heiður að fá að vera umráðamenn þessa heimsþekkta vörumerkis,“.