Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) lækkar í janúar, tólfta mánuðinn í röð. Lækkun hagvísisins síðastliðið ár er hin mesta síðan árið 2008. Þessi þróun ber vott um hægari hagvöxt eða stöðnun framundan og þá óvissu sem ríkir með efnahagshorfur segir Yngvi Harðarson framkvæmdastjóri félagsins í tilkynningu.

Fjórir af sex undirliðum lækka frá í desembermánuði en mesta framlag til lækkunar hafa debetkortavelta, og ferðamannafjöldi. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er enn sterk en nokkur óvissa er í ferðaþjónustu og kjaramálum.

Þá eru áfram áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.
Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Hugmyndin að baki vísitölunni er sú að framleiðsla hefur aðdraganda.

Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í janúar lækka fimm af sex undirþáttum frá fyrra ári. Frá í des. lækka hins vegar fjórir af sex undirþáttum.