Hlutabréfaverð í Kína hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi í næstum 2 ár og í dag, og lækkuðu helstu vísitölur landsins þegar mest var í dag um meira en 6%. Kemur lækkunin í kjölfar þess að kínversk yfirvöld opnuðu fyrir frekari fjárfestingar Kínverja erlendis.

Shanghai Composite vísitalan lauk viðskiptadegi í kínversku kauphöllinni með 4,0% lækkun en CSI300 vísitalan náði 4,3% lækkun. Hafa hlutabréf í fjármálafyrirtækjum og fasteignafyrirtækjum lækkað mest.

Hefur hlutabréfaverð í landinu ekki tekið dýpri dýfu á einum degi síðan í febrúar árið 2016, þegar mistókst að setja stjórn á hreyfingar hlutabréfaverða eftir að mikil lækkun hafði hrisst upp í fjárfestum.

Hlutabréfaverð í Hong Kong hefur svo tekið á sig mestu lækkun síðan í fjármálahruninu fyrir um áratug. Féll Hang Seng vísitalan í sjálfstjórnarhéraðinu um 3,1% á sama tíma og undirvísitala fyrir bréf á meginlandi kína lækkaði um 3,9%.

Nemur lækkun Hang Seng vísitölunnar 9,5% yfir vikuna, sem er eins og áður segir er mesta lækkun á einni viku á vísitölunni síðan í október 2008 í kjölfar fall Lehman Brothers. Greinendur sem Reuters fréttastofan ræddi við segja engin merki vera um að kínverskir sjóðir studdir af ríkinu ætli sér að stíga inn til að leggjast gegn lækkunum á markaðnum.

Höfðu sjóðirnir 5 sem ríkið stofnaði eftir miklar lækkanir á mörkuðum árið 2015 minnkað stöður sínar á mörkuðum á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Hins vegar hefur kínverski seðlabankinn lýst því yfir að hann hafi flætt markaðinn með 2 þúsund milljörðum yuana, eða andvirði um 32.372 milljarða íslenskra króna af tímabundnu fé vegna væntanlegra nýárshátíðar samkvæmt kínversku dagatali.