*

mánudagur, 23. október 2017
Erlent 5. júlí 2012 10:38

Mitt Romney vildi ekki fá Bob Diamond

Allt að tíu milljónir króna kostar að sitja við sama borð og Mitt Romney, framboðsefni Repúblikana í kvöldverði í London í sumar.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Bob Diamond, fyrrverandi bankastjóri breska bankans Barclays, hefur hætt við að vera veislustjóri í kvöldverði Mitt Romney, framboðsefni Repúblikana í næstu forsetakosningum í Bandaríkjunum. Fyrirhugað er að halda veisluna í sumar en megintilgangur hennar er að safna framlögum í kosningasjóð Romneys. Barclays og starfsmenn bankans hafa studd dyggilega við bakið á Romney og eru þeir á lista yfir 10 helstu stuðningsmenn framboðsefnisins. 

Eins og netmiðillinn Huffington Post greinir frá þá var það Romney sjálfur sem átti frumkvæðið að því að svona fór. Hann hafi afboðað komu sína á samkomuna því hann hafi ekki viljað láta sjá sig nálægt manni sem er bendlaður við fjármálamisferli. 

Bob Diamond sagði af sér í vikunni eftir að breska fjármálaeftirlitið sektaði bankann um 290 milljónir punda, jafnvirði tæpra 60 milljarða íslenskra króna, vegna misnotkun á markaði með millibankavexti. 

Í Huffington Post segir að Bretum hafi sortnað fyrir augum yfir því hvað kvöldverðurinn kostaði. Þeir sem vilja sitja við sama borð og framboðsefnið Romney þurfa að punga út á bilinu 25.000 til 75.000 dölum fyrir sætið. Það gera á bilinu 3,2 til tæpra 10 milljónir íslenskra króna. 

Romney hefur nú ákveðið að koma í veisluna enda er búið að fá staðgengil fyrir Diamond. 

Stikkorð: Mitt Romney Barclays Bob Diamond