*

miðvikudagur, 22. maí 2019
Innlent 2. júlí 2018 17:02

MS stofnar útrásarfyrirtæki

Mjólkursamsalan hefur stofnað dótturfélagið Ísey útflutningur fyrir erlenda starfsemi sem Jón Axel Pétursson mun leiða.

Ritstjórn
Mjólkursamsalan er með starfsemi víða um land en nú hefur útflutningshluti fyrirtækisins verið settur í sérstakt fyrirtæki.
Haraldur Guðjónsson

Nýtt dótturfélag Mjólkursamsölunnar, Ísey útflutningur ehf. hefur verið stofnað fyrir erlenda starfsemi MS. Öll erlend starfsemi Mjólkursamsölunnar hefur verið flutt yfir í nýstofnað dótturfélag MS en frá og með 1. júlí heyrir allur útflutningur fyrirtækisins undir, Ísey útflutning ehf. (Ísey Export ltd.)

Þessar breytingar eru sagðar liður í því að setja meiri kraft og fókus á alþjóðlega vörumerkið Ísey skyr á erlendum mörkuðum. Ísey skyr er nú fáanlegt í 15 löndum og umsvifin aukast stöðugt að því er segir í fréttatilkynningu. Ísey útflutningur ehf. sér einnig um allan annan útflutning á vörum sem MS selur á erlenda markaði.

Þeir starfsmenn sem áður unnu á útflutningssviði MS munu flytjast með yfir í dótturfyrirtækið og hafa þessar breytingar engin áhrif á daglega starfsemi. Jón Axel Pétursson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS sem hann hefur sinnt frá árinu 2007 og tekur við starfi framkvæmdastjóra hjá Ísey útflutningi ehf.

Þá mun Erna Erlendsdóttir, sem sinnt hefur starfi útflutningsstjóra MS, taka við sem sölu- og markaðsstjóri hjá nýja félaginu. Að sögn Jóns Axels Péturssonar, framkvæmdastjóra Ísey útflutnings ehf., eru þetta skynsamlegar breytingar til að fylgja eftir þeim fjölmörgu tækifærum sem hið alþjóðlega vörumerki Ísey skyr stendur frammi fyrir.

„Það eru mörg sóknartækifæri framundan fyrir Ísey skyr og töldum við skynsamlegt að halda utan um þessi tækifæri og efla starfið í sérstöku félagi sem einbeitir sér að þessum verkefnum,“ segir Jón Axel. „Með þessu getum við jafnframt sinnt þjónustu við viðskipavini okkar enn betur og einfaldað verkferla til mikilla muna.“

Ísey skyr er nú selt á eftirfarandi erlendum mörkuðum:

 • Norðurlöndunum
 • Færeyjum
 • Bretlandi
 • Írlandi
 • Möltu
 • Sviss
 • Rússlandi
 • Hollandi
 • Lúxemborg
 • Belgíu
 • Ítalíu

Í byrjun næsta árs munu svo fleiri lönd bætast í hópinn þegar sala á Ísey skyri hefst í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Japan.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

 • - Viðskiptablaðið sent heim
 • - Vefaðgangur að vb.is
 • - Frjáls verslun sent heim
 • - Fiskifréttir sent heim