*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 23. september 2012 14:55

Neikvæð viðhorf til Íslands í kringum hrunið

Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Markaða hjá Íslandsbanka, starfaði erlendis í hruninu.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Tryggvi Björn hóf störf hjá Íslandsbanka fyrir um ári síðan. Fram að þeim tíma starfaði hann hjá Barclays Capital í um sjö ár. „Ég vann hér heima á árunum 2000 til 2003. Hugur minn leitaði út og mig langaði að hasla mér völl erlendis. Í MBA námi í Frakklandi sannfærðist ég um að hávaxtamarkaðurinn (e. high yield market) væri áhugaverður og sá markaður sem mig langaði að starfa á. Atvinnuástandið var erfitt á þeim tíma en ég fékk fljótlega inni hjá Barclays Capital í London,“ segir hann.

Tryggvi Björn segist vel hafa fundið fyrir falli fjármálakerfisins í starfi sínu hjá Barclays Capital og heyrt viðhorf erlendra fjárfesta til íslensku bankanna. „Ég vann á stærsta skuldabréfagólfi í Evrópu. Þar voru rúmlega þúsund manns sem einblíndu á lánsfjármarkaðinn, allt frá skuldsettum og áhættusömum fyrirtækjum yfir í ríkissjóði sem fjármögnuðu sig á þessu gólfi. Um og eftir minni krísuna árið 2006 varð ljóst að endurfjármögnun bankanna yrði erfið,“ segir hann.

„Innst inni vonaði maður að þetta yrði í lagi. En öll merki og viðhorf gagnvart íslenskum fjárfestum og fjármögnun bankanna benti til að slíkt myndi ekki takast. Það var ef til vill erfiðast að ræða við mjög neikvæða erlenda fjárfesta og heyra hljóðið í þeim. Á móti fékk maður símtöl frá Íslandi þar sem menn voru fullvissir um að allt yrði í lagi,“ segir hann.

Ítarlegt viðtal er við Tryggva Björn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.