Norski krónprinsinn er staddur í Brasilíu eins og stendur, þar sem hann reynir að byggja upp eftirspurn og athygli landsmanna á hinum innflutta norska þorski.

Ferð krónprinsins er einhverjir fjórir dagar og vonast hann til að bæta sölu á fisknum. Útflutningur þorsks frá Noregi hefur hrunið um 37% á tíu mánaða tímabili, samkvæmt tölum frá norska útvegsráðinu.

Gengi brasilíska gjaldmiðilsins real hefur snarlækkað það sem af er ári - heil 30%. Gengislækkunin hefur talsverð áhrif á innkaupavenjur neytenda.

Innflutningsverð hafa hækkað svo um munar, sem ýtir undir verðbólguna þarlendis, en hún nálgast heil 10%. Vegna þessarra verðhækkana eru neytendur ekki eins spenntir fyrir innfluttum vörum - hvort sem um ræðir norskan þorsk eða japönsk raftæki.

Þorskur er vinsæll matur í Brasilíu - fiskurinn er mikilvægur hluti af hefðbundinni jólamáltíð innfæddra. Það má því segja að gengislækkun realsins komi báðum aðilum heldur illa - bæði norskum útgerðarmönnum sem og brasilískum fjölskyldum.